Barn í geðrofi vistað í fangaklefa

Stúlkan var sögð of veik til þess að leggjast inn …
Stúlkan var sögð of veik til þess að leggjast inn á bæði geðdeild og barnadeild Sjúkrahússins á Akureyri og var því vistuð í fangaklefa. Mynd úr safni. mbl.is/Hari

Síðustu helgina í september var 17 ára gamalli stúlku í geðrofi vísað frá Sjúkrahúsinu á Akureyri og hún vistuð í fangaklefa næturlangt, þar sem hún var sögð of veik til þess að leggjast inn, bæði á geðsvið og barnadeild sjúkrahússins.

Foreldrum tókst að fá það samþykkt að hún yrði flutt á neyðarvistun Stuðla, en þriggja vika bið er fyrir stúlkuna inn á meðferðargang Stuðla. Sama stúlka varð fyrir kynferðisbroti inni á Vogi fyrr á árinu.

Þetta kom fram í erindi Örnu Sifjar Jónsdóttur og Berglindar Hólm Harðardóttur, starfsmanna Olnbogabarna, á fundi Náum áttum, samstarfshóps um fræðslu- og forvarnarmál, á Grand hóteli í morgun.

Arna Sif sagðist hafa fengið þessa reynslusögu stúlkunnar frá foreldrum hennar í upphafi vikunnar, en Olnbogabörn eru samtök foreldra sem berjast fyrir bættum úrræðum fyrir börn með fjölþættan vanda.

„Því miður eru sögur sem þessar algengar,“ segir Arna Sif í samtali við mbl.is. „Við fáum að heyra svona sögur og höfum alveg átt svona sögur sjálfar, þess vegna erum við að þessu,“ segir Arna Sif en sonur hennar átti sjálfur við alvarlegan vanda að stríða.

„Bara það að sjúkrahús geti neitað að taka við barninu, það er ekki eðlilegt. En það er ekki aðstaða þarna á Akureyri – og reyndar hérna í bænum færi krakkinn örugglega líka í fangaklefa, því það er bara fullorðinsgeðdeild, sem getur tekið við svona,“ segir Arna Sif.

Leitarbeiðnum fjölgar á milli ára

Í erindi þeirra Örnu Sifjar og Berglindar í morgun kom fram að leitarbeiðnir til lögreglu vegna týndra barna undir 18 ára aldri voru orðnar 229 talsins 1. október síðastliðinn, en þær voru 200 talsins á öllu síðasta ári.

Lögregla hefur verið beðin um að leita að 80 mismunandi börnum, en í fyrra var leitað að 79 börnum. 42 einstaklinga hefur verið leitað á árinu, sem ekki hefur verið leitað að áður. Hluti þessa hóps á við alvarlegan fíknivanda að stríða, segja þær Arna Sif og Berglind, en benda á að þetta sé einungis sá hópur barna sem einhver lýsir eftir. Sum börn hafi ekki það bakland.

Á fundinum í morgun var fjallað um lyfjanotkun ungmenna, en auk þeirra Örnu Sifjar og Berglindar héldu þeir Ólafur B. Einarsson verkefnisstjóri hjá Embætti landlæknis og Víðir Sigrúnarson geðlæknir hjá SÁÁ erindi fyrir fundargesti.

Undanfarið hefur Guðrún Hálfdánardóttir blaðamaður mbl.is fjallað ítarlega um stöðu barna og ungmenna með fjölþættan vanda og þau takmörkuðu úrræði sem þeim standa til boða, nú síðast í greinaflokknum Gætt að geðheilbrigðiÞá umfjöllun má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert