Björt fer með rangt mál

Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra.
Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra. mbl.is/Hanna

Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, reifar ranglega forsendur niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, í grein sem hún skrifar í Fréttablaðið í dag.

Umfjöllunarefni greinarinnar eru úrskurðir nefndarinnar í máli Fjarðalax ehf. annars vegar og Arctic Sea Farm ehf. hins vegar, en nefndin felldi úr gildi ákvarðanir Matvælastofnunar um að veita fyrirtækjum rekstrarleyfi fyrir fiskeldi á Vestfjörðum.

Björt segir að eðlilega hafi margir mikla skoðun á þessu, „en ráðlegt væri að þeir sem opinberlega fjalla um málið læsu fyrst úrskurðinn og færu rétt með.“

Málsrök kærenda, ekki forsendur úrskurðarins

Aftur á móti virðist sem Björt telji að þau rök, sem kærendur í málunum tveimur vísuðu til undir liðnum málsrök kærenda, séu í raun forsendur fyrir niðurstöðum nefndarinnar.

Hið rétta er, eins og lesa má af umræddum úrskurðum, að meginforsenda fyrir úrskurði nefndarinnar í báðum tilvikum var sá ágalli, að ekki þótti sýnt fram á í mati á umhverfisáhrifum að enginn annar mögulegur framkvæmdakostur hafi getað komið til greina, í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. og 4. málsl. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, en greinarnar lúta að matsáætlun og frummatsskýrslu.

Björt afhenti Guðmundi Inga Guðbrandssyni, núverandi umhverfisráðherra, lyklana að ráðuneytinu …
Björt afhenti Guðmundi Inga Guðbrandssyni, núverandi umhverfisráðherra, lyklana að ráðuneytinu eftir síðustu alþingiskosningar. mbl.is/Árni Sæberg

„Meiriháttar annmarkar“

Í greininni fullyrðir Björt að forsendur fyrir niðurstöðu nefndarinnar séu „afar yfirgripsmiklar“, og „lesturinn sláandi“, þó hún vísi svo aðeins til þeirra málsraka kærenda, sem nefndin fjallaði ekki um í niðurstöðukafla úrskurðarins.

„Fyrir það fyrsta rekur nefndin hvernig meiriháttar annmarkar hafi verið á allri málsmeðferð hvað varðar laxeldi í sjó af hendi íslenskra stjórnvalda í áraraðir. Samkvæmt 2. málslið 40. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands geta stjórnvöld ekki afhent eignar- eða afnotarétt að hafsvæði við landið sé ekki fyrir hendi sérstök lagaheimild til hinnar tilteknu ráðstöfunar hafsvæðisins. Hún sé ekki til staðar og þannig brjóti leyfisveitingarnar almennt gegn stjórnarskránni,“ segir Björt í greininni, en umrædd grein stjórnarskrárinnar er þó aðeins nefnd á nafn í málsrökum kærenda.

„Í öðru lagi tiltekur nefndin að Umhverfisstofnun hafi ekki tekið afstöðu eins og henni bar lögum samkvæmt til fyrirliggjandi mats á hættu á erfðamengun villtra laxa vegna laxeldis, mengunar í fjörðum (sem í þessu tilfelli er á við óhreinsað skolp frá 110 þúsund manna byggð að því er fram kemur í matsgögnum) og sjúkdóma í eldisfiski á við laxalús,“ segir Björt enn fremur, en samt sem áður er aðeins um að ræða málsrök kærenda. Verður ekki séð að nefndin víki í úrskurðinum að þessu atriði.

„Þetta eru staðreyndir málsins“

„Í þriðja lagi en ekki í síðasta lagi fjallar nefndin um þá staðreynd sem sé einnig ein og sér óhjákvæmilega umsvifalaus ógilding starfsleyfa, að fjarlægð á milli eldissvæða ótengdra aðila í þessu máli er ekki samkvæmt reglugerðum,“ fullyrðir Björt, en í úrskurði sínum fjallar nefndin þó ekki um þetta atriði.

„Þetta eru staðreyndir málsins er varða dóm [sic] úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.“

Hér má lesa grein Bjartar sem birtist í Fréttablaðinu í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert