Ekki bara raketta á fréttahimni

Byggingaverkamenn að störfum. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Byggingaverkamenn að störfum. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Golli

Allir sem sóttu sameiginlegan fund velferðarnefndar og atvinnuveganefndar Alþingis í morgun voru sammála um mikilvægi þess að taka á félagslegum undirboðum á vinnumarkaði af myndugleika þannig að það starfsfólk sem kæmi til Íslands til að vinna byggi við það öryggi sem það þyrfti að búa við og þau kjör sem væri búið að semja um.

Þetta segir Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður VG og varaformaður velferðarnefndar Alþingis. Fundinn sóttu Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, og fulltrúar frá dómsmálaráðuneytinu, Eflingu, Starfsgreinasambandinu, Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands, Vinnueftirlitinu, ríkisskattstjóra, Vinnumálastofnun og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Allir töluðu í sömu átt

Að sögn Ólafs töluðu allir í sömu átt á fundinum. Áberandi var að mönnum fannst vanta samhæfingu í aðgerðir til að takast á við vandann og velt var upp hugmyndum um hvort koma þyrfti upp samræmingaraðila sem myndi halda utan um þessi mál. Einnig var því velt upp hvort eitthvað vantaði á í löggjöfinni varðandi kennitöluflakk og keðjuábyrgð.

„Það var mjög ánægjulegt að á fundinum var ekki grundvallarmunur á afstöðu vinnuveitenda eða verkalýðshreyfingarinnar varðandi það að menn eru mjög óánægðir með að þessi mál skuli vera að koma upp. Menn vilja greinilega ekki sjá þennan blett á íslenskri atvinnustarfsemi.“

Ólafur Þór Gunnarsson er varaformaður velferðarnefndar Alþingis.
Ólafur Þór Gunnarsson er varaformaður velferðarnefndar Alþingis. mbl.is/Hari

Mikilvægt byrjunarskref

Ólafur nefndi að stofnanir hafi kvartað yfir því að fjármagn skorti til að hægt væri að takast betur á við vandann. 

„Ég lít svo á að þetta sé mjög mikilvægt byrjunarskref hjá þinginu að afla upplýsinga sem þarf til að fara lengra með þetta mál. Það er mjög mikilvægt að þetta verði ekki bara einhver raketta á þessum fréttahimni heldur að þetta verði raunverulega til þess að við ýtum við málunum þannig að það komist einhver skikkan á þetta og við getum staðið keik og sagt: „Við erum með okkar vinnumarkaðsmál í lagi“,“ greindi Ólafur frá.

Ekki hefur verið ákveðið um annan fund hjá nefndum Alþingis vegna málsins en að sögn Ólafs var það rætt eftir fundinn að ástæða væri til að fylgja því eftir seinna í vetur, gjarnan með fundi með ráðherra, eftir að reynsla er komin á nýja löggjöf um keðjuábyrgð og eftir að nefndarmenn hafa unnið frekar í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert