„Engin ástæða fyrir fantalegri innrás“

Ingimar Skúli telur að lögregla hafi misbeitt valdi sínu í …
Ingimar Skúli telur að lögregla hafi misbeitt valdi sínu í málinu. mbl.is/Arnþór Birkisson

Ingimar Skúli Sæv­ars­son­, eig­andi og fram­kvæmda­stjóri Mann­gild­is, segist hafa fengið upplýsingar frá Þjóðskrá um miðjan september um að skilríki eins erlends starfsmanns fyrirtækisins þættu grunsamleg og að lögreglu hefði verið gert viðvart. Innrás lögreglumanna í gær hafi komið mjög á óvart.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Ingimari en hann var handtekinn ásamt níu er­lend­um starfs­mönn­um Mann­gild­is. 

Ingimar segist hafa þrýst á Þjóðskrá að ganga úr skugga um skilríki mannsins. 19. september fékk Manngildi staðfestingu frá Þjóðskrá um að skráning þessa einstaklings og nokkurra annarra erlendra starfsmanna hefði verið samþykkt. Af því segir hann hafi mátt ráða að engar frekari athugasemdir yrðu gerðar við skilríkin.

Af hverju var fólk ekki kallað til yfirheyrslu?

„Það kom því ekki lítið á óvart þegar tugir lögreglumanna ruddust inn á heimili starfsmanna og annarra leigjenda hjá Manngildi eldsnemma í gærmorgun. Engin ástæða var fyrir þessari fantalegu innrás sem olli skelfingu og vanlíðan íbúa og annarra gesta,“ kemur fram í yfirlýsingunni.

Hvers vegna kallaði lögreglan viðkomandi einstaklinga ekki einfaldlega til yfirheyrslu á lögreglustöð eða sótti þá í vinnuna? Þurfti virkilega að kalla tugi lögreglumanna út á næturvakt í bófahasar til að skoða mál sem lá fyrir á skrifborði á lögreglustöðinni?“ spyr Ingimar og bætir við að lögreglu hafi verið ljóst í september að skilríki eins eða fleiri útlendinga væru röng eða fölsuð.

Ingimar segir að lögregla hafi misbeitt valdi sínu í þessu máli og að hann muni fara fram á rannsókn á vinnubrögðum embættisins. 

„Lögreglan vissi mætavel af athugun sinni að ég hafði ekkert með þessi skilríkismál að gera, enda sjá starfsmennirnir sjálfir um að framvísa þeim hjá Þjóðskrá. Engu að síður heldur lögreglan því fram í fjölmiðlum að rannsókn á meintri aðild minni verði haldið áfram, þó svo að hún hafi allar upplýsingar um að sú aðkoma er engin.“ 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vildi ekki tjá sig um yfirlýsingu Ingimars þegar eftir því var leitað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert