„Mér finnst hinn góði eigandi okkar aðeins setja þig í erfiða stöðu“

Jón Ásgeir mætir í Landsrétt vegna Aurum Holding-málsins í september.
Jón Ásgeir mætir í Landsrétt vegna Aurum Holding-málsins í september. Kristinn Magnússon

Sérstakur saksóknari hefur reynt að sýna fram á að Jón Ásgeir hafi beitt þrýstingi á Bjarna Jóhannesson, viðskiptastjóra Glitnis og Jóns, ásamt Lárusi Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, til að þrýsta á að lánveiting Glitnis vegna kaupa á hlut í Aurum Holding yrði veitt. Jón Ásgeir var sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í héraðsdómi árið 2016.

Í ítarlegri umfjöllun Morgunblaðsins um Aurum holding-málið kemur fram hvernig Jón Ásgeir fékk ítrekað að hækka yfirdrátt sinn hjá Glitni í miðri lausafjárkrísu vegna ýmissa gjalddaga hjá sér og félögum tengdum sér m.a. á grundvelli þess að yfirdrátturinn yrði greiddur með hluta af Aurum-lánveitingunni. 

Hinn 22. maí 2008 sendir Jón Ásgeir póst á Lárus Welding og Bjarna með verkefnalista um þau mál sem hann vill að verði kláruð. Efst á þeim lista er „Goldsmith v Fons“ sem Glitnir þarf að klára í vikunni samkvæmt póstinum. „Sælir. Þetta eru málin nenni ekki að bögga ykkur á hverjum degi með þessu enda ætlast ég til að CEO þessara félaga vinni sín mál ef við komum þessum málum frá þá er borðið mitt hreint. Annars kannski best að ég verði starfandi stjórnarformaður GLB:).“

Í skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara 4. júlí 2011 las saksóknari upp þennan tölvupóst fyrir Jón Ásgeir sem neitaði að tjá sig um hann en minnti þó saksóknara á að gleyma ekki broskallinum: „[...] hann hefur nefnilega gleymst svo oft.“

Lárus Welding áframsendir verkefnalista Jóns Ásgeirs á m.a. Einar Örn Ólafsson, Magnús Arnar Arngrímsson og Bjarna og segir: „Maggi Bjarni þið verðið að búa til lánamál úr efstu tveimur málunum þarna [Goldsmith v. Fons] og taka þetta fyrir.“

Það líða ekki nema 25 mínútur þangað til Einar Örn sendir póst og tekur fram að verðið á Goldsmith sé ekki í neinu samræmi við verðmat og ritar hann Lárusi: „Mér finnst hinn góði eigandi okkar aðeins setja þig í erfiða stöðu með þessum mail. Goldsmith er t.d. virði 1,5 en ekki 4,0 o.s.frv. En ég geri allt sem þú segir mér að gera. Kv. Einar.

Lárus svarar morguninn eftir og segir: „Þetta eru bakhjarlarnir sem ýta manni út af brúninni... en verðum að hugsa í lausnum.“

Í dómi héraðsdóms frá 2016 hafnar Lárus Welding því algjörlega að hafa látið undan fortölum eða þrýstingi af hálfu Jóns Ásgeirs. Spurður um þessi tölvupóstsamskipti við Einar Örn viðurkenndi hann fyrir dómi að tilvísunin í bakhjarla sem ýttu manni fram af brúninni væri vísun í Jón Ásgeir. Hann neitaði því að þarna væri um þrýsting að ræða og væri pósturinn settur fram í hálfkæringi.

Í nær daglegum símasamskiptum

Þá voru Lárus Welding og Jón Ásgeir í nær daglegum símasamskiptum á þessu tímabili. Símtalalisti milli þeirra tveggja sem embætti sérstaks saksóknara tók saman og Morgunblaðið hefur undir höndum sýnir m.a. 179 símtöl og SMS þeirra á milli frá 2. febrúar til loka ágúst 2008. Sérstakur saksóknari spyr Lárus Welding í skýrslutöku hvort 72 símtöl og SMS í einum mánuði teljist ekki frekar mikil samskipti við Jón Ásgeir. Lárus svarar að sér finnist þau ekki hafa verið það mikil og hann hafi rætt miklu oftar við Jón Sigurðsson, stjórnarmann í Baugi, en þeir voru einnig í nær daglegum samskiptum á þessum tíma.

Þá er Lárus einnig spurður af hverju Jón Ásgeir sé að berjast svona mikið fyrir hönd Fons og hvort það sé vegna þess að Fons skuldaði Jóni Ásgeiri peninga. Segist Lárus ekki muna það. Pálmi segir einnig í sinni skýrslustöku að hann viti ekki af hverju Jón Ásgeir sé í viðræðum við Gunnar og Lárus um sín mál en Jón Ásgeir fékk t.d. 15. júní 2008 sendar fjárhagsupplýsingar Fons hf. frá Bjarna. Hér ber að taka fram að Jón Ásgeir sat aldrei í stjórn Fons hf. né hafði hann prókúru fyrir félagið. Glitnir sendir hins vegar Jóni Ásgeiri tvö viðhengi með öllum fjárhagsupplýsingum um Fons hf. frá byrjun júní: „[...] Mér finnst algjörlega galið að Bjarni Jóhannesson sendi... varst þú ekki að segja að Jón hafi fengið þetta?“ segir Pálmi í skýrslutöku sinni 2011 þegar saksóknari sýnir honum tölvupóstinn og viðhengin um fjárhagsupplýsingar Fons hf. Hann þvertekur fyrir að hafa gefið Bjarna heimild til að senda Jóni þessar upplýsingar en erfitt er að sjá annað en hér sé um brot á bankaleynd að ræða.

Meðal þess sem notað var til að hækka verðmat á hlut Fons í Aurum Holding voru drög að samningi við skartgripafélagið Damas, þrátt fyrir að orðrétt segi í þeim samningi að hann sé ekki lagalega bindandi og aðilar að honum eigi að miða við að skrifa undir alvörukaupsamning fyrir 31. júlí 2008. Þar er verðmat félagsins 100 milljónir punda.

Í skýrslutöku Jóns Ásgeirs 4. júlí 2011 leggur hann fram upplýsingar um að verðmæti félagsins árið 2011 sé 180 til 220 milljónir punda. Bendir Jón Ásgeir ítrekað á það verðmat í skýrslutöku sinni. Spyr saksóknari m.a. hvort ekki sé búið að afskrifa fullt af skuldum félagsins síðan 2008 en Jón Ásgeir heldur sig við að hefði Glitnir viðhaldið hlut sínum í félaginu hefði það fengið allan peninginn til baka.

Hinn 6. júlí 2008 virðist vera komin mynd á hvernig staðið verður að lánamálum vegna Aurum og sendir Bjarni póst á Lárus Welding sem segir: „Ok þetta verður þá svona. Bréfin keypt á 6 ma inn í FS28. GLB eignast call á FS28 á 1 kr. Stím-lán greitt upp, ca. 2,75 ma og Fons afsalar sér kröfunni á FS28. Seljandi fær 2 ma greidda út [...].“ Lárus svarar daginn eftir að hann sé sáttur við þetta og er þetta síðan teiknað upp innan bankans.

Af hverju lánum við ekki Pálma 2 milljarða til að koma fyrir á Cayman

Hinn 10. júlí 2008 sendi Einar Örn póst á Lárus sem bar titilinn „Goldsmith“ þar sem hann skilur ekki af hverju er verið að fara í þessa lánveitingu en þar segir: „Verd ad vidurkenna ad eg skil ekki af hverju vid lanum ekki palma 2 ma. kr, til ad koma fyrir a cayman, adur en hann fer a hausinn, I stad thess af fara i alla thessa goldsmith aefingu“.

16. júlí 2008, daginn sem lánssamningur er undirritaður, spyr Árni Hrafn Gunnarsson, lögfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf Glitnis, hvar eigandaáhættan liggi fram að sölu og hvort bankinn vilji ekki frekari tryggingar fyrir því að Damas-samningurinn gangi eftir. Bjarni svarar Árna daginn eftir að „2 ma verða greiddir inn á reikning Fons í Glitni [...] við vitum að heilmingurinn [sic] á að enda inni á reikningi í Glitni og viljum fá heimild Fons um að millifæra þann hluta inn á þann reikning“.

Hinn 21. júlí 2008 er lánið greitt út og fara tveir milljarðar inn á reikning Fons. Bjarni sendir seinna sama dag póst á Pálma: „Sæll Pálmi. Viltu staðfesta heimild Glitnis á millifærslu af reikningi Fons hjá Glitni [...] að fjárhæð 1.000.000,000,-, inn á reikning [...] eigandi JÁJ.“

Samþykkir Pálmi þetta og segir: „Enda vorum við að kaupa skuldabréf af Blásól fyrir sömu upphæð.“

Reikningurinn sem um ræðir er sá sami og Jón Ásgeir hafði fengið yfirdrátt á allt árið 2008. Stóð yfirdráttur hans í -704.916.008 kr. 21. júlí 2008 þegar millifærslan átti sér stað.

Hið dularfulla skuldabréf sem Pálmi taldi sig eiga á Þú Blásól fékkst aldrei greitt en 18. nóvember 2008 eru tilkynntar til fyrirtækjaskrár breytingar á stjórn Þú Blásól ehf. og stígur Jón Ásgeir úr stjórn félagsins og er prókúruumboð hans afturkallað.

Lánardrottnar Aurum Holding tóku yfir félagið og hlutafé þess var fært niður í eitt sterlingspund árið 2009 og árið 2010 fara fram húsleitir vegna málsins.

Hinn 15. febrúar 2011 er FS38 ehf. sett í gjaldþrotaskipti og 6. janúar 2012 finnast engar eignir í þrotabúi félagsins. Ákæra af hálfu embættis sérstaks saksóknara var gefin út 12. desember 2012 og hefur málið farið fram og til baka í réttarkerfinu síðan þá. Niðurstaða í Landsrétti er væntanleg en sem fyrr segir voru Lárus Welding og Magnús Arnar sakfelldir fyrir umboðssvik í héraðsdómi 2016. Jón Ásgeir var sýknaður af kröfum ákæruvaldsins um hlutdeild í brotum þeirra.

Eft­ir­far­andi at­huga­semd barst frá Jóni Ásgeiri í kjöl­far frétta­flutn­ings Morg­un­blaðsins um Aur­um-málið. 

Þá skal þess getið að engin tengsl eru á milli skartgripaverslunarinnar Aurum í Reykjavík og Aurum Holding-málsins.

mbl.is