Hver er ég og hvar á ég heima?

JJ Bola er ljóðskáld og rithöfundur. Hann er fæddur í …
JJ Bola er ljóðskáld og rithöfundur. Hann er fæddur í Austur-Kongó en flúði til Bretlands ásamt fjölskyldu sinni er hann var sjö ára gamall. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hver er ég og hvar á ég heima?“ er meðal spurninga sem ljóðskáldið og rithöfundurinn JJ Bola velti upp í fyrirlestri á friðarráðstefnu Alþjóðamálastofnunar og Höfða í morgun. Er ég Lundúnabúi? Breti? Englendingur eða Austur-Kongómaður?

Sjálfsmynd er oft á reiki því eins og JJ Bola bendir á þá er hann fæddur í Austur-Kongó en flúði ásamt fjölskyldu sinni þegar hann var á sjöunda aldursári til Bretlands. Hann hefur búið í London síðan þá og það er borgin hans. En þegar hann heimsótti Austur-Kongó sem fullorðinn maður í fyrsta skipti frá því fjölskyldan flúði hitti hann fullt af fólki sem var eins og foreldrar hans, fólk sem hann þekkti ekki en var ættingjar hans.

Þrátt fyrir að vera Lundúnabúi á hann rætur í borginni Kinshasa í Austur-Kongó. Líkt og svo margir aðrir sem hafa þurft að flýja heimili sitt verður alltaf hluti af þér eftir og aðstæður þínar eru aldrei nákvæmlega þær sömu og annarra í kringum þig. Til að mynda átti hann ekki fæðingarvottorð sem gerði það að verkum að hann gat ekki farið úr landi og óttinn við að vera sendur úr landi blundar í bakgarði fjölskyldunnar á meðan hann var að alast upp. 

Hann var 21 árs þegar hann fór að tjá sig með ljóðum þrátt fyrir að ljóðið hafi blundað í honum miklu lengur. Eða eins og hann segir – það er kannski ekki eitthvað sem þú talar hátt um þegar þú ert unglingur. Enda þegar hann kom út úr ljóðaskápnum taldi mamma hans fullvíst að hann væri að semja rapp.

Ljóð hans Refuge hefur farið víða. Það hefur verið lesið fyrir þingheim í breska þinghúsinu og á viðskiptaþinginu í Davos. Þar tekst hann meðal annars á við aðlögun og samsvörun líkt og mjög er fjallað um þegar kemur að fólki á flótta og innflytjendur. 

Hann lýsir þeim aðstæðum sem fólk flýr, skrímslum sem koma, eyðileggja og drepa. Sundra fjölskyldum og reka þær af heimilum sínum. Senda fólk á flótta.

Hann lýsir í ljóðinu hvernig þau komu til að leita skjóls og voru kölluð flóttafólk. Því reyndu þau að aðlagast í gegnum tungumálið þangað til þau hljómuðu eins. Sama átti við um klæðnað. Þau hafi breytt sér til þess að falla í hópinn. 

Að sögn JJ Bola hefur geisað stríð í Austur-Kongó í rúma tvo áratugi og liggja um sex milljónir í valnum. Áður var þar einvaldur við stjórn og þar áður var landið nýlenda. Þetta sé veruleiki sem börn í Austur-Kongó alast upp við. Friður er ekki ofarlega í huga þessara barna, er ekki annað en hugarástand. 

Ímyndunaraflið rót alls

„Í mínum huga er ímyndunaraflið tákn friðar. Við verðum að geta ímyndað okkur frið til þess að upplifa frið,“ segir JJ Bola. Máli sínu til stuðnings tók hann dæmi af stól. Fyrirbæri sem okkur þykir sjálfsagður í dag en varð ekki til fyrr en einhver fékk nóg af því að sitja á jörðinni og ímyndaði sér eitthvað að sitja á. Stóllinn varð ekki til nema með því að beita ímyndunaraflinu. Ekkert verður til án þess og sama eigi við um frið.

„Ég sé fyrir mér frið og það er mín ímyndun – aðrir segja mér að ég verði að vera raunsær en af hverju er ég ekki raunsær? Því það er ekki endilega allt sem við gerum sem er hefðbundið,“ sagði JJ Bola við gesti friðarráðstefnunnar The Imagine Forum: Youth on the Move í Veröld í morgun. 

Fjölmennt var á friðarráðstefnu Alþjóðamálastofnunar og Höfða í Veröld í …
Fjölmennt var á friðarráðstefnu Alþjóðamálastofnunar og Höfða í Veröld í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Að hans sögn er fólk sem er á flótta á leið til betra lífs – í von um að eignast framtíð fyrir sig og börn sín. Oft sé æðsti draumurinn að koma börnum til mennta þannig að þau eigi möguleika á framtíð. Hann segir að svo hafi verið um foreldra hans og þau hafi alltaf lagt á það mikla áherslu að hann og systkini hans gengju menntaveginn. 

JJ Bola kom inn á popúlisma og hatursorðræðu í erindi sínu og segir að það sé alltaf til fólk sem sé fullt hatri, meðal annars í garð innflytjenda og flóttafólks. Því hatrið er yfirleitt háværari en ástin og jákvæðni. Þetta hafi sýnt sig á síðum ákveðinna fjölmiðla undanfarin ár. 

JJ Bola hefur eins og áður sagði búið í London frá því hann var sjö ára gamall og þegar hann bendir fólki, sem vill reka flóttafólk úr landi, á að það vilji þar að leiðandi reka hann úr landi vegna uppruna síns verður það mjög undrandi. Því það gerir einfaldlega ráð fyrir því að hann sé einn af þeim. Hann tali lýtalausa ensku og hans menningarheimur er London. Stundum telji fólk að þetta eigi aldrei eftir að koma fyrir það – að verða landflótta – en það sé eitthvað sem enginn geti fullyrt í þeim heimi sem við búum í. 

Ímyndunaraflið (Imagine) er eina landið án landamæra. Þar er hvorki krafist vegabréfs eða annars af fólki. Þegar okkur tekst að færa okkur frá hugsuninni um landamæri og inn á nýjar lendur er friður orðinn raunhæfur möguleiki, segir ljóðskáldið JJ Bola sem er meðal annars talsmaður Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR).

Frekar verður fjallað um friðarráðstefnuna hér á mbl.is.

mbl.is