Segir reynt að hafa áhrif á dómsniðurstöðu

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Augljóst er að uppruni gagna í umfjöllun um Aurum-málið sem birt er í Morgunblaðinu í dag, er beint úr skúffu saksóknara. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Jón Ásgeir Jóhannesson sendi frá sér í morgun, en þar kveður hann reynt með skrifunum að hafa áhrif á dómsniðurstöðu sem væntanleg er í Aurum-málinu næstu daga.

Í fréttaskýringunni er greint frá því að í tölvu­pósts­am­skipt­um stjórn­enda og starfs­manna Glitn­is, sem Morg­un­blaðið hef­ur und­ir hönd­um, hafi komið fram að Jón Ásgeir hafi ít­rekað fengið að hækka yf­ir­drátt sinn hjá Glitni árið 2008, m.a. á þeim grund­velli að hann myndi fá millj­arð frá Pálma þegar hlut­ur hans í Aur­um hefði verið seld­ur.

Pálmi er hins vegar sagður hafa trúað því að hann væri að láta Jón Ásgeir fá millj­arð króna gegn skulda­bréfi í fé­lag­inu Þú Blá­sól ehf., sem var þá í eigu Jóns Ásgeirs.

Yfirlýsing Jóns Ásgeirs er birt hér í heild sinni:

„Frá því um aldamótin síðustu hefur það verið einlægur vilji Davíðs Oddssonar og hans nánustu fylgisveina að koma mér á bak við fangelsismúra. Í þeim tilgangi hefur sú hirð misbeitt valdi sínu og áhrifum, m.a. með beinum hætti á ríkislögregluna á árinu 2002 og síðar. Enn hefur þessari þrá þeirra ekki verið svalað og nú tæpum tuttugu árum síðar birtist þetta sjúklega hugarástand á síðum Morgunblaðsins. 

Það er í anda vinnubragða þeirra að þegar væntanlegur er dómur á næstu dögum í máli sem ég er ákærður í sem hlutdeildarmaður, að reynt sé að hafa áhrif á dómsniðurstöðuna með því að láta blaðamann skrifa „fréttaskýringu“ á heila opnu Morgunblaðsins með forsíðuvísun. Í umfjölluninni eru orð og gerðir slitin úr samhengi og reynt að skapa þau hughrif lesandans, og þá væntanlega dómenda Landsréttar líka, að málið snúist bara um mig. Allt í þeim tilgangi að láta þennan gamla og rætna draum ritstjórans rætast. 

Það er augljóst að uppruni gagnanna er beint úr skúffu saksóknara. Það er merkilegt að saksóknari árið 2018 láti ekki nægja að flytja málið fyrir dómi, heldur taki upp á því að taka sér stöðu með náhirð Davíðs Oddssonar og haldi máflutningi áfram á síðum Morgunblaðsins. 

Málið er nú í þriðja skipti fyrir dómi. Í hin tvö skiptin hef ég verið sýknaður. Ég trúi því að sama niðurstaða verði raunin á næstu dögum og Landsréttur sjái hið augljósa í málinu, að Glitnir banki hf. var betur settur eftir viðskiptin en fyrir, eins og staðfest var af þremur fræðimönnum úr háskólasamfélaginu við meðferð málsins og sem hlýtur að leiða til sýknu allra ákærðu. Þessa staðreynd kaus Morgunblaðið að leiða hjá sér í umfjöllun sinni. Hún þjónar sennilega ekki lund ritstjórans, enda sannleikurinn ekki alltaf sagna bestur í Hádegismóum.  

Jón Ásgeir Jóhannesson.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert