Mesti sigur sem hægt var að vinna

PIP-brjóstapúði úr sílikoni. Niðurstaða Hæstaréttar Frakklands í dag er jákvæð …
PIP-brjóstapúði úr sílikoni. Niðurstaða Hæstaréttar Frakklands í dag er jákvæð fyrir íslensku konurnar sem eiga aðild að annarri hópmálsókn. AFP

Hæstiréttur Frakklands kvað í dag upp dóm í hópmálsókn kvenna gegn þýska vottunarfyrirtækinu TÜV Rheinland, vegna PIP-brjóstapúðamálsins. Niðurstaðan var sú að vísa ætti málinu til áfrýjunardómstóls í París, en rétturinn samþykkti ekki þá niðurstöðu áfrýjunardómstóls í Aix-en-Provence að TÜV Rheinland væri ekki skaðabótaskylt.

Þetta er fyrsta hópmálsóknin í þessu máli, en 204 íslenskar konur eiga aðild að annarri hópmálsókn á hendur fyrirtækinu, sem alls um 9.000 konur eru aðilar að.

Sú hefur verið í bið á meðan niðurstöðu Hæstaréttar Frakklands í fyrstu hópmálsókninni var beðið, en niðurstaða dagsins mun hafa áhrif á hópmálsóknina sem íslensku konurnar eru aðilar að.

Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmaður íslensku kvennanna, segir í samtali við mbl.is að þetta sé í raun mesti sigur sem hægt hafi verið að vinna á þessu stigi málsins og að henni sé sagt að niðurstaðan, sem var kunngjörð kl. 14 að íslenskum tíma, sé afar afgerandi, en Saga flaug til Frakklands til þess að vera viðstödd dómsuppkvaðninguna.

Ný hópmálsókn sett af stað 

„Dómstóllinn í Aix-en-Provence [sem tekur fyrir mál íslensku kvennanna] hefur verið að bíða með sína niðurstöðu í þeirra máli þar til niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir í þessu máli,“ segir Saga við blaðamann og bætir við að ákvörðun hafi verið tekin um að bæta við fjórðu hópmálsókninni á hendur TÜV Rheinland, en þegar eru þrjár málsóknir í gangi fyrir frönskum dómstólum.

Þá mun opnast fyrir að fleiri konur geti sótt sér skaðabætur vegna málsins – og einnig íslenska ríkið, sem Saga segir að hafi „því miður“ enn ekki látið reyna á rétt sinn.

Rúm sjö ár eru liðin frá því að PIP-brjósta­púðamálið komst í há­mæli, en árið 2011 kom í ljós að franska fyr­ir­tækið Poly Implant Prot­hé­se hafði notað svo­kallað iðnaðarsíli­kon í brjósta­fyll­ing­ar sem það fram­leiddi.

Um 440 ís­lensk­ar kon­ur fengu ígrædd­ar PIP-brjósta­fyll­ing­ar, en af þeim höfðuðu 204 mál á hend­ur TÜV Rhein­land, sem sá um eft­ir­lit með fram­leiðslunni í Frakklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert