„Þyngra en tárum tekur“

Ásmundur Friðriksson á Alþingi.
Ásmundur Friðriksson á Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásmundur Friðriksson, þingsmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi Pírata fyrir að hafa borið hann saman við SS-menn þýskra nasista eftir að hann mismælti sig í ræðu í gærkvöldi þar sem hann talaði um „sérfræðingana að sunnan“ sem SS-sveitina.

Ásmundur sagði Pírata hafa staðið upp á þinginu og bendlað hann við stormsveitir þriðja ríkisins og bætti við að fjölmiðlarnir Stundin og Kjarninn hafi tekið undir með þeim í þessu tilfelli. Stundum geri Ríkisútvarpið slíkt hið sama. „Að þeir fari að bera mig saman við þessa morðóðu hunda frá Þýskalandi, það er þyngra en tárum tekur að þurfa að bera svoleiðis,“ sagði Ásmundur á Alþingi undir dagskrárliðnum störf þingsins.

Í ræðu sinni nefndi Ásmundur einnig gagnrýni þingmanns Pírata á komu Piu Kjærsgaard, forseta danska þjóðþingsins, hingað til lands í sumar vegna fullveldishátíðar Íslands. Þá hafi Píratinn mótmælt  komu hennar vegna þess að hún hefði sömu skoðanir og Adolf Hitler.

„Mér finnst þetta fyrir neðan allar hellur,“ sagði Ásmundur. Hann bætti við að „þessir sömu aðilar“ hafi „alls konar flugumenn úti í bæ sem bera ófögnuðinn út um mann“. Bornar hafi verið á hann lygar, meðal annars um að hann væri þjófur og hafi stolið af þinginu. „Mér finnst að þetta sé óboðlegt fyrir þingið að það skuli vera að tala svona um þingmenn að þeir séu SS-menn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert