15% hækkun skili sér ekki til foreldra

Formaður félgags dagforeldra í Reykjavík telur að hækkun á niðurgreiðslu …
Formaður félgags dagforeldra í Reykjavík telur að hækkun á niðurgreiðslu til dagforeldra muni ekki skila sér til foreldra. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Halldóra Björk Þórarinsdóttir, formaður Barnsins, félags dagforeldra í Reykjavík, segir að þær aðgerðir til að efla dagforeldraþjónustu í borginni sem samþykktar voru í skóla- og frístundaráði á þriðjudag komi ekki nægjanlega til móts við þær tillögur sem starfshópur um þessi málefni setti fram í sumar.  

Í tillögunum sem ráðið samþykkti á þriðjudag kemur meðal annars fram að niðurgreiðslur til allra  dag­for­eldra munu hækka um 15% frá og með næstu ára­mót­um og að borgin muni út­vega húsnæði þeim dag­for­eldr­um sem vinna tveir og tveir sam­an.

Halldóra segir að dagforeldrar sem hafa starfað lengi í faginu gleymist og að of mikil áhersla sé lögð á nýja dagforeldra. „Það má ekki gleyma þessum dagforeldrum sem hafa unnið alla vinnuna. Þörfin er ekki á nýjum dagforeldrum akkúrat núna, þörfin er frekar um áramót. Nýir dagforeldrar fá ekki ný börn inn í haust. Það er ekki hægt að lofa þeim fastri vinnu.“

Hjón sem starfa saman fá ekki húsnæði frá borginni

Skúli Þór Helga­son, formaður skóla- og frí­stundaráðs, sagði í samtali við mbl.is á þriðjudag að með því að vilji borgarinnar til framtíðar sé að dagforeldrar vinni tveir og tveir saman.

„Það væri frábært ef við mættum velja þann sem vinnur með okkur. Ég og maðurinn myndum alveg vilja húsnæði en við fáum það ekki þar sem við þekkjumst og höfum bæði starfað í einhvern tíma. Þetta á við um einn nýjan og einn eldri,“ segir Halldóra, sem er ekki sátt með fyrirkomulagið. Þá segir hún að margir foreldrar kjósi að vera með börnin sín í minni hópum.

Fóru fram á 25% hækkun á niðurgreiðslu

Varðandi hækkun á niðurgreiðslu til dagforeldra segir Halldóra að hún sé hrædd um að 15% hækkun muni ekki skila sér til foreldra. „Við fórum fram á lágmark 25% af því að hækkunin hefur verið það lítil undan farin ár þannig að við höfum staðið í stað í launahækkunum miðað við alla aðra hópa þannig að við getum ekki lofað því að þetta skili sér til foreldra, því miður.“

Halldóra átti sæti í starfshópnum sem vann tillögur sínar í vor og segir hún að vinnan hafi byrjað mjög vel í hópnum. „Þetta lofaði rosalega góðu en mér finnst svolítið eins og núna hafi verið komið aftan að okkur.“ Starfshópurinn mun funda með skóla- og frístundaráði þar sem farið verður yfir þær aðgerðir sem voru samþykktar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert