650 milljóna aukning ekki nóg

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði heilbrigðisráðherra að því hvaða áform séu uppi um að gera geðheilbrigðisþjónustu aðgengilegri og ódýrari, sérstaklega fyrir unga fólkið, í ljósi hárrar tíðni sjálfsvíga og þunglyndis á meðal ungs fólks á Íslandi.

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kvaðst í gærkvöldi hafa komið heim af tveggja daga ráðstefnu í London að frumkvæði bresku ríkisstjórnarinnar undir yfirskriftinni „jöfnuður í geðheilbrigðismálum á 21. öld“ þar sem fulltrúar 60 þjóða voru staddir. Hún sagði Ísland standa sig vel í samanburði við önnur lönd en hægt væri að gera betur.

Hún sagði alla stefna í þá átt að mannréttindi séu höfð meira að leiðarljósi í geðheilbrigðisþjónustu og nefndi að hún vilji auka teymisvinnu í heilsugæslu og aðkomu sálfræðinga. Verið sé að gera það í samræmi við geðheilbrigðisáætlun ríkisstjórnarinnar. Bætti hún við að 650 milljóna króna heildaraukning fjármagns hafi verið sett í málaflokkinn.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert

Logi sagði 650 milljóna króna heildaraukningu ekki vera nóg. „Þetta mál sem er svo alvarlega vaxið eins og geðheilbrigði ungs fólks má ekki verða að flokkspólitísku máli,“ sagði hann og bætti við að málið væri eitt það alvarlegasta sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir.

Svandís steig aftur í pontu og sagði að í Bretlandi hafi sérstakur ráðherra verið skipaður til að fjalla um sjálfsvígsmál. Hún nefndi að hún hefði fengið niðurstöður frá starfshópi í tengslum við þessi mál og hefur hún fallist á allar tillögurnar sem þar komu fram og reynt að setja fjármagn í þær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert