Anna er Háskólakona ársins 2018

Anna tók við viðurkenningu frá stjórn Félags háskólakvenna á Hótel …
Anna tók við viðurkenningu frá stjórn Félags háskólakvenna á Hótel Holti. Ljósmynd/Félag háskólakvenna

Félag háskólakvenna hefur valið Önnu Þorvaldsdóttur tónskáld sem Háskólakonu ársins. Anna gegnir stöðu staðartónskálds við Sinfóníuhljómsveit Íslands, en hún lauk BA-gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands og meistara- og doktorsgráðu í tónsmíðum frá Kaliforníuháskóla í San Diego í Bandaríkjunum.

Í tilkynningu frá Félagi háskólakvenna segir að við valið sé horft til þess að framlag Háskólakonu ársins til samfélagins þyki skara fram úr, að hún sé brautryðjandi á sínu fagsviði og góð fyrirmynd fyrir aðrar háskólakonur. Þar segir að Anna sé eitt virtasta tónskáld samtímans á Norðurlöndunum og þó víðar væri leitað, en verk hennar hafi hlotið ýmsar viðurkenningar og verðlaun og séu reglulega flutt víðsvegar um heiminn.

Fjölmargar konur voru á forvalslista Félags háskólakvenna og var stjórn samdóma um að Anna uppfyllti vel öll þau skilyrði sem sett eru fyrir valinu. Tilgangur vals Háskólakonu ársins er að vekja athygli á fjölbreyttum starfsvettvangi háskólakvenna, beina kastljósinu að störfum þeirra og rannsóknum og undirstrika framlag þeirra til samfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert