Dæmdir fyrir árás við Nætursöluna

Árásin átti sér stað fyrir utan Nætursöluna á Akureyri.
Árásin átti sér stað fyrir utan Nætursöluna á Akureyri. mbl.is/Jón Pétur

Héraðsdómur Norðurlands eystra sakfelldi í gær tvo karlmenn fyrir líkamsárás við Nætursöluna á Akureyri í júní í fyrra þar sem þeir veittust að manni með höggum og spörkum. Annar þeirra var dæmdur til fjögurra mánaða fangelsisvistar en hinn sex mánaða. Lengri dómurinn er skilorðsbundinn.

Málsatvikum er lýst þannig að tveir menn hafi setið fyrir utan Nætursöluna laust fyrir klukkan sex að morgni þegar hópur manna, þar á meðal ákærðu, hafi komið þar að.

Þegar mennirnir tveir ætluðu að fara hafi mennirnir sem dæmdir voru skyndilega slegið og sparkað til annars þeirra. Tvö vitni, starfsmenn Nætursölunnar, báru um að til að mynda hefði blætt úr sári á höfði mannsins við högg.

Mennirnir viðurkenndu brot sín en neita því að hafa sparkað í höfuð hans, eins og kemur fram í ákæru. Lögreglumaður sem kom á vettvang í lok árásinnar sagðist hafa séð annan mannanna sparka í vanga fórnarlambsins þar sem það hálfsat á götunni.

Árásin náðist á myndband þar sem sjá má hvernig mennirnir lömdu og spörkuðu í fórnarlambið.

Eins og áður segir voru mennirnir dæmdir til fjögurra og sex mánaða fangelsisvistar. Lengri dómurinn er skilorðsbundinn en ekki hinn vegna þess að sá sem var dæmdur til fjögurra mánaða fangelsisvistar hefur tvívegis áður verið sakfelldur fyrir líkamsárás.

mbl.is