„Fordæmalaus tilraunastarfsemi“ saksóknara

Hörður Felix Harðarson ásamt skjólstæðingi sínum, Hreiðari Má Sigurðssyni.
Hörður Felix Harðarson ásamt skjólstæðingi sínum, Hreiðari Má Sigurðssyni. mbl.is/Hari

Allt önnur mynd var dregin upp af málsatvikum af verjanda Hreiðars Más Sigurðssonar um þá atburði sem urðu til þess að héraðssaksóknari gaf út ákæru í tengslum við meint innherja- og umboðssvik Hreiðars. Sagði hann saksóknara leitast eftir því að skapa ný dómafordæmi í réttarsögunni sem væru í andstöðu við fyrri dómafordæmi.

Verjandinn sagði í málflutningi sínum að útlán til handa Hreiðari og öðrum stjórnendum vegna nýtingar á kauprétti hafi verið samþykkt langt áður með stefnu stjórnar bankans um kauprétti. Því hafi ekki þurft að samþykkja útlánin sérstaklega með bókun stjórnarinnar og sagði verjandinn að þetta hefði líka verið upp á teningnum árin á undan.

„Ljóst að stjórnin var meðvituð

„Það er alveg ljóst að stjórnin var meðvituð og tók þessa ákvörðun,“ sagði verjandi Hreiðars. Hafði saksóknari áður sagt í málflutningsræðu sinni að stjórnin hefði árin 2005-2007 samþykkt sérstaklega útlán til Hreiðars vegna kaupanna. Verjandinn sagði það hins vegar rangt og aðeins væri verið að upplýsa stjórnina um lánveitingarnar.

Með þessari framsetningu sagði verjandinn að saksóknari væri að fara alveg nýjar leiðir í umboðssvikamálum. Hingað til hefði í öllum umboðssvikamálum verið miðað við ákvörðun um lánveitingu, en í þessu tilfelli væri verið að ákæra lántaka. Hins vegar hefði Hreiðar ekki verið í aðstöðu til að skuldbinda bankann þegar um lán til sín væri að ræða og þá væri ljóst að hann hefði hvorki undirbúið lánið sem hann fékk né undirritað það.

Saksóknari hefur haldið því fram að Hreiðar hafi hins vegar í raun velt atburðarás af stað þegar hann tilkynnti að hann myndi nýta kauprétt sinn og hafði samband við miðlara til að klára viðskiptin. Með því væri sú staða komin upp að bankinn þyrfti að lána honum fjármunina og gat hann verið viss í ljósi stöðu sinnar hjá bankanum að ekki yrði gerð athugasemd við það.

Frá dómsal í héraðsdómi.
Frá dómsal í héraðsdómi. mbl.is/Hari

Saksóknari sagði í málflutningi sínum að Hreiðar hefði auðgast um 320 milljónir vegna viðskiptanna, þótt fjármunirnir hafi farið til greiðslu skattaskuldbindinga vegna hlutabréfakaupanna. Verjandinn segir þó af og frá að tala um að Hreiðar hafi auðgast. Ekkert hafi runnið í hans vasa.

Þá hafði saksóknari sagt Hreiðar hafa gerst sekan um innherjasvik með að nýta sér upplýsingar um að gengi bankans væri hærra en skráð gengi þegar hann átti í viðskiptum með umrædd bréf. Vísaði saksóknari til þess að Hreiðar hafi vitað af umfangsmikilli markaðsmisnotkun í bankanum til að halda gengi bréfanna uppi, en Hreiðar var einn þeirra sem dæmdir voru í markaðsmisnotkunarmáli bankans.

Verjandinn sagði hins vegar að um væri að ræða framsal bréfanna frá Hreiðari til einkahlutafélags í hans eigu og því hefðu sömu upplýsingar verið til staðar beggja vegna borðsins í þessum viðskiptum þar sem bréf fóru frá Hreiðari sjálfum til félagsins Hreiðar Már Sigurðsson ehf., sem Hreiðar var eini eigandi og stjórnandi í.

„Þetta er eina mál sinnar tegundar“

„Þetta er fordæmalaus tilraunastarfsemi,“ sagði hann um lögskýringar og málatilburð ákæruvaldsins og sagði ekki hægt að horfa á það sem innherjaupplýsingar þegar markaðurinn og eftirlitsstofnanir hafi vitað hvernig deild eigin viðskipta átti í viðskiptum með bréf bankans, jafnvel þótt Hæstiréttur hafi dæmt viðskiptavaktina ólögmæta.

Þá sagði hann málið einstakt, sérstaklega í ljósi þess að unnið væri að innleiðingu á nýrri reglugerð á fjármálamarkaði um að Íslandi bæri að taka upp evrópskar reglur. Sagði hann að í þeim reglum væri meðal annars tekið fram sem dæmi um lögmæt viðskipti að færa bréf yfir í einkahlutafélag í eigu sama aðila. Því væri mjög líklegt að Hreiðar væri sá eini í sögunni sem yrði ákærður fyrir að samþykkja að taka lán til hlutabréfakaupa samkvæmt starfskjarastefnu. Og þá væri ljóst að hann yrði ekki ákærður undir þeim reglum fyrir að „svíkja sjálfan sig í verðbréfaviðskiptum,“ eins og verjandinn orðaði það. „Þetta er eina mál sinnar tegundar.“

Verjandinn fór fram á sýknu Hreiðars og að allur málskostnaður yrði greiddur úr ríkissjóði. Hafnaði hann kröfu saksóknara sem hafði farið fram á að Hreiðari yrði gerð 12-15 mánaða refsing til viðbótar við fyrri refsingu sem hann hefur hlotið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert