Snemmtæk íhlutun getur bjargað lífum

Mark A. Bellis, rannsóknastjórnandi við Lýðheilsustofnanir Wales og Stóra-Bretlands og …
Mark A. Bellis, rannsóknastjórnandi við Lýðheilsustofnanir Wales og Stóra-Bretlands og stjórnarformaður miðstöðvar forvarna gegn ofbeldi hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO. mbl.is/Árni Sæberg

Með því að grípa snemma inn er hægt að bjarga mannslífum og um leið spara þjóðfélaginu gríðarlegar fjárhæðir. Erfið uppvaxtarskilyrði og áföll í æsku geta mótað líf viðkomandi alla ævi, segir Mark A. Bellis,  rannsóknastjórnandi við lýðheilsustofnanir Wales og stjórnarformaður miðstöðvar forvarna gegn ofbeldi hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO.

Bellis flutti erindi á málþingi Geðhjálpar og Geðverndarfélags Íslands í gærkvöldi á Alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum. Fullt var út að dyrum á málþinginu sem fór fram í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar. 

Að sögn Bellis væri hægt að koma í veg fyrir mörg þeirra vandamála sem fólk stendur frammi fyrir ef viðkomandi hefði fengið nauðsynlega aðstoð í æsku. Þannig sé hægt að rjúfa ferli sem jafnvel hefur verið  viðvarandi kynslóð eftir kynslóð. Því sagan endurtekur sig oft og börn sem búa við ofbeldi, vanrækslu, misnotkun, misnotkun áfengis eða annarra vímuefna og önnur erfið uppvaxtarskilyrði eru líklegri til þess að hafna í sömu aðstæðum sem gerendur. Það er að misnota vímuefni, beita ofbeldi og verða fyrir ofbeldi. Eins að stunda kynlíf mjög snemma og unglingaþunganir eru algengari hjá þeim sem alast um við slíkar aðstæður.

Margfalt líklegri til að taka eigið líf

Eins eru meiri líkur á langvinnum sjúkdómum eins og hjartasjúkdómum, krabbameini og sykursýki hjá fólki sem er með áfallasögu úr æsku. Margfalt meiri hætta er á sjálfsvígum og að lenda í útistöðum við lögregluna. Börn sem búa við erfiðar aðstæður mæta verr í skóla og eru almennt verr á sig komin. Þannig að það er mikilvægt fyrir alla, hvort sem það er velferðarkerfið, heilbrigðisþjónustan, lögregla eða menntakerfið að aðstoða börn sem glíma við erfiða upplifun. Að aðstoða þau á meðan þau eru enn börn. 

Að sögn Bellis getur aðstoðin verið af ýmsu tagi. Má þar nefna stuðning við foreldra í foreldrahlutverkinu, sveigjanleiki í skólakerfinu, sálrænan stuðning við börn og svo má lengi telja. Að veita þeim aðstoð við að byggja upp seiglu sem nýtist þeim í að biðja um aðstoð þurfi þau á henni að halda. Nefndi Bellis mikilvægi þess að börn hafi aðgang að einhverjum fullorðnum sem þau geta treyst. Einhverjum sem styður þau í því sem þau eru að gera og aðstoða þau við að vinna úr áföllum svo sem með því að notfæra sér listmeðferð til að vinna úr áföllum eða beina orkunni í íþróttir svo fátt eitt sé nefnt. Að gera þau að virkum þátttakendum í samfélaginu. 

Fyrirlestrarsalurinn var þéttsetinn í gærkvöld og þurftu margir að færa …
Fyrirlestrarsalurinn var þéttsetinn í gærkvöld og þurftu margir að færa sig í annan sal og fylgjast með af skjá. mbl.is/Árni Sæberg

Að sögn Bellis hafa rannsóknir sýnt að erfiðar aðstæður í æsku eru mjög algengar og að meðaltali glíma allt að 10-20% barna við erfiðar upplifanir í æsku (ACE Adverce childhood experiences). 

Vincent Felitti og rann­sókn­ar­hóp­ur hans í Banda­ríkj­un­um standa að baki þekkt­ustu rann­sókn­inni á þessu sviði. Hún geng­ur und­ir heit­inu Adverse Child­hood Experiences (ACE), eða Dul­in áhrif áfalla í bernsku á heilsu­far á full­orðins­ár­um, og náði til 17.000 manna úr­taks á síðasta ára­tug 20. ald­ar­inn­ar.

Niður­stöður rann­sókn­ar­inn­ar gefa til kynna að erfiðar upp­eldisaðstæður og áföll í æsku auki til muna lík­urn­ar á því að fólk veikist bæði and­lega og lík­am­lega eða eigi við fé­lags­leg­an vanda að stríða á full­orðins­ár­um. ACE-mæli­kv­arðinn geng­ur út að leggja fyr­ir fólk 10 spurn­ing­ar um lík­am­legt of­beldi, and­legt of­beldi, kyn­ferðis­legt of­beldi, lík­am­lega van­rækslu og fleira í æsku. Svar­and­inn fær eitt stig við hvert já­kvætt svar. Eft­ir því sem stig­in eru fleiri er talið lík­legra að viðkom­andi eigi eft­ir að stríða við and­leg­an eða lík­am­leg­an heilsu­brest og fé­lags­leg vanda­mál og/​eða deyja ótíma­bær­um dauðdaga.

Sem dæmi um af­leiðing­ar þess að hafa orðið fyr­ir fjór­um eða fleiri slík­um áföll­um í bernsku aukast lík­ur á hjarta- og æðasjúk­dóm­um, krabba­meini, lang­vinn­um lungna­sjúk­dóm­um, áhættu­hegðun, geðrösk­un­um og ótíma­bær­um dauða. Ef áföll­in eru sex eða fleiri stytt­ist ævin að meðaltali um 20 ár, að því er fram kem­ur í rann­sókn Felett­is.

Svipuð staða víðast hvar

Starf Bellis og rannsóknir byggja á þessari rannsókn og sýna svipaða niðurstöðu en hann hefur bæði rannsakað líðan fólks í Austur-Evrópu, sem og Englandi og Wales. Í fyrirlestrinum í gærkvöldi kom fram að niðurstaðan er svipuð á öllum þessum stöðum. Svipað hlutfall barna verður fyrir áföllum af þessu tagi í bernsku hvort heldur sem viðkomandi hefur alist upp í Wales eða Rússlandi. 

Skólinn upplýstur um afskipti lögreglu

Eitt af því sem Bellis nefndi og hefur verið gert í Wales er að þegar lögregla er kölluð til vegna heimilisofbeldis og börn eru á heimilinu þá er haft samband við skólayfirvöld barnanna og þau látin vita. Með því er hægt að tryggja að betur er stutt við barnið en annars væri.

Því ef vitneskjan er ekki fyrir hendi er hætta á að kennarar geri sér ekki grein fyrir því hvers vegna hegðun barns er eins og hún er. Mjög áberandi er hversu verr börn sem búa við slæmar aðstæður mæta í skóla og þurfa oftar að leita sér aðstoðar í heilbrigðiskerfinu, bæði heilsugæslu og bráðamóttöku. 

Eitt af því sem Bellis og samstarfsfólk vinnur að núna er að leggja fyrir fólk spurningalista varðandi áföll í æsku (ACE) þegar það leitar til læknis. Flestir þeirra sem voru spurðir voru mjög ánægðir með vera spurðir um áföll í æsku. Því oft er fyrsta skrefið að greina frá og síðan að geta rætt við einhvern um uppvaxtarárin og erfiðleika sem þeim fylgdu. 

Bellis kynnti ýmislegt sem verið er að gera til að bæta líðan fólks. Má þar nefna bandarískt kerfi sem miðar að því að styrkja fjölskyldur, styðja foreldra og þar með bæta líðan barna með því að draga úr líkum á ofbeldi og vanrækslu. Kerfið nefnist SEEK (Safe Environment for Every Kid) og hefur gefið góða raun í að styðja við fjölskyldur sem þurfa á aðstoð að halda. Því stundum þarf ekki mikið til að hjálpa fjölskyldum en aðgerðir geta skipt sköpum. Að gripið sé inn áður en það verður of seint.

Bellis segir mikilvægt að kerfin tali saman og vinni saman. Því ef allir leggist á eitt að bæta líðan barna er hægt að bregðast við strax í æsku áður en vandinn er orðinn enn meiri og alvarlegri. Þá getur það jafnvel verið of seint. 

Áföll í æsku geta haft gríðarleg áhrif á allt líf …
Áföll í æsku geta haft gríðarleg áhrif á allt líf fólks. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert