Greiningardeild spáir hærri verðbólgu

Arion banki.
Arion banki. mbl.is/Eggert

Greiningardeild Arion banka spáir 0,6% hækkun á vísitölu neysluverðs í október en það er í takt við bráðabirgðaspá deildarinnar frá því í lok september.

Samkvæmt spánni hækkar 12 mánaða taktur verðbólgunnar í 2,9% úr 2,7% frá því í síðasta mánuði, að því er kemur fram í tilkynningu á vef Arion banka. Hagstofan mælir vísitöluna 8. til 12. október og mælingin verður birt 29. október.

Verðbólguspá greiningardeildarinnar gerir ráð fyrir því að mánaðartaktur verðbreytinga sé að breytast. Gangi spáin eftir hefur mánaðarhækkun vísitölu neysluverðs ekki verið meiri síðan í júní á þessu ári.

„Munurinn liggur í því að nú gerum við ráð fyrir hækkun á nær öllum undirvísitölum en í júní báru tvær undirvísitölur þungann af verðhækkununum, þ.e. flugfargjöld og fasteignaverð. Undanfarna ársfjórðunga hefur verðbólgan verið að breytast,“ segir í tilkynningunni.

„Þar til í apríl á þessu ári var ársverðbólga án húsnæðis neikvæð en hefur síðan farið hratt hækkandi sem bendir til þess að liðir sem höfðu verðhjöðnunaráhrif þar til fyrir stuttu eru farnir að ýta verðlagi upp á við. Á sama tíma hefur dregið úr hækkunum á fasteignaverði en þar sem fasteignaverðið er enn að hækka þá leiðir þessi þróun til hækkandi verðbólgu.“

Fram kemur í tilkynningunni að veiking íslensku krónunnar sé stór áhrifaþáttur í verðbólguspánni og verði það næstu mánuði nema krónan styrkist snögglega.

„Samkvæmt verðbólgulíkani Greiningardeildarinnar má gera ráð fyrir meiri verðbólgu í október og næstu mánuði en við erum að spá. Krónan hefur veikst svo hratt sem gæti gengið tilbaka,“ segir einnig í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert