Hæstiréttur staðfesti ljósmæðradóm

Hæstiréttur Íslands staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í fyrra, …
Hæstiréttur Íslands staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í fyrra, sem kvað á um að íslenska ríkinu bæri að greiða fimm ljósmæðrum vangoldin laun. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í maí í fyrra, þar sem íslenska ríkið var dæmt til að greiða fimm ljósmæðrum vangoldin laun fyrir vinnu sem þær inntu af hendi meðan á verkfalli Ljósmæðrafélags Íslands stóð vorið 2015.

Ríkið hafði áfrýjað niðurstöðu héraðsdóms í málinu, en niðurstaða Hæstaréttar er að dómur héraðsdóms skuli vera óraskaður. Ríkið er auk þess dæmt til þess að greiða ljósmæðrunum fimm 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

„Við unnum þetta mál, enda hlaut það að vera. Það eru bara almenn mannréttindi að fá greidd laun fyrir unna vinnu,“ segir Áslaug Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, í samtali við mbl.is.

Hún segist reikna með því að í framhaldinu af dómi Hæstaréttar muni fleiri starfsmenn Landspítala fá réttilega greitt fyrir vinnu sína sem unnin var meðan á verkfallinu stóð.

„Þeir ættu náttúrulega bara í raun og veru að greiða öllum núna, ekki bara þeim sem voru í málinu heldur öllum þeim sem fengu sömu meðferðina . Ég lít svo á að þannig sé fordæmið. Ég get ekki ímyndað mér annað en að þetta gangi yfir alla,“ segir Áslaug.

BHM lýsir yfir fullnaðarsigri

Hið sama segir Bandalag háskólamanna, sem sótti málið fyrir hönd ljósmæðranna fimm. Í fréttatilkynningu BHM segir að ljóst sé að niðurstaða Hæstaréttar hafi fordæmisgildi gagnvart öðrum fagstéttum sem vinna vaktavinnu á Landspítala og sættu launaskerðingum líkt og ljósmæður í verkfallinu árið 2015.

„Bandalag háskólamanna og hlutaðeigandi stéttarfélög munu fylgja því fast eftir að félagsmenn sem brotið hefur verið á fái hlut sinn leiðréttan,“ segir í tilkynningunni.

Þar er sömuleiðis haft eftir Þórunni Sveinbjarnardóttur formanni BHM að bandalagið og Ljósmæðrafélag Íslands fagni því að búið sé að „leiðrétta þá framkvæmd sem hefur viðgengist í nokkra áratugi hjá íslenska ríkinu að draga af launum fólks í verkfalli óháð raunverulegu vinnuframlagi.“

„Með dómi Hæstaréttar í dag er staðfest að ljósmæður sem unnu utan lotuverkfalls eiga að fá greitt fyrir vinnuframlag sitt. Niðurstaðan er í samræmi við meginreglu vinnuréttar um gagnkvæmni ráðningarsambands. Um leið felst í dómnum staðfesting á því að lotuverkföll eins og þau sem um ræðir í þessu tilviki hafa þá virkni sem þeim er ætlað að hafa,“ segir Þórunn.

Dómur Hæstaréttar Íslands 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert