Lagaheimild fyrir tryggingargreiðslu

Sindri Þór Stefánsson nýtti sér heimild í lögum til þess …
Sindri Þór Stefánsson nýtti sér heimild í lögum til þess að reiða fram tryggingarfé í stað þess að sitja í farbanni. mbl.is/Eggert

„Lögin bjóða þennan möguleika,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, spurður út í mál Sindra Þórs Stefánssonar, sem greiddi tryggingarfé til þess að losa sig undan farbanni.

Fréttablaðið greindi frá því í dag að Sindri Þór væri nú staddur á Spáni ásamt fjölskyldu sinni.

Hann er ákærður, ásamt sex öðrum, fyrir þjófnað á 600 tölvum úr gagnaverum á Reykjanesi í desember og janúar sl. og hafði Sindri Þór verið úrskurðaður í farbann til 25. október næstkomandi vegna málsins.

Heimild er í lögum fyrir því að menn geti reitt fram tryggingu og losnað þannig undan gæsluvarðhaldi og öðrum sambærilegum ráðstöfunum, þar á meðal farbanni, en hana er að finna í 101. gr. laga um meðferð sakamála. Það gerði Sindri Þór, en brjóti hann þau skilyrði sem honum eru sett rennur tryggingaféð í ríkissjóð.

Spurning hversu ríkir menn eru

Ólafur Helgi hljómaði ekki upprifinn yfir þessari tilhögun mála, en aðspurður hvort hann teldi hættu á að Sindri Þór sneri ekki aftur til landsins sagðist hann ekki geta svarað því.

„Your guess is as good as mine,“ sagði Ólafur Helgi og meinar með því að ágiskun blaðamanns um það væri eins góð og hans eigin.

Eins og kunnugt er strauk Sindri Þór úr landi er hann var vistaður í opna fangelsinu að Sogni í apríl sl. Mál hans vakti heimsathygli, enda ekki á hverjum degi sem menn strjúka úr fangelsi og til annarra landa með flugi.

„Þetta er niðurstaða dómstólsins og þá er ekkert við því að segja,“ segir Ólafur Helgi og bætir við að spurningin sé hversu ríkir menn séu og „hvort þeir vilji að þessir peningar renni til ríkisins eða ekki“.

Vísir greindi frá því að upphæðin sem Sindri Þór greiddi til að losa sig undan farbanni væri 2,5 milljónir króna, en það hefur ekki fengist staðfest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert