Lögreglumanni dæmdar bætur

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að lögreglumaður, sem starfað hafði við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og veitt hafði verið lausn frá starfi vegna meintra brota í starfi, ætti rétt á miskabótum upp á 1,5 milljónir króna auk vaxta vegna málsins. Þá voru honum dæmdar 2,5 milljónir í málskostnað.

Hæstiréttur lækkaði hins vegar bæturnar, en héraðsdómur hafði dæmt ríkið til þess að greiða lögreglumanninum 2,2 milljónir króna í bætur. Sjálfur fór hann fram á 4 milljónir í miskabætur og rúmlega 1,1 milljón króna í skaðabætur.

Lögreglumanninum var veitt lausn frá störfum í janúar 2016. Hann kærði ákvörðunina til innanríkisráðuneytisins sem felldi ákvörðunina úr gildi í júlí sama ár. Áður hafði héraðssaksóknari lokið rannsókn á málinu og komist að þeirri niðurstöðu að ekkert renndi stoðum undir það að lögreglumaðurinn hefði gerst botlegur í starfi.

Málið var því fellt niður og krafðist lögreglumaðurinn í kjölfarið skaðabóta vegna miska og fjártjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna málsins. Hæstiréttur féllst á að ákvörðun lögreglustjóra hefði gengið lengra en efni stóðu til og ekki hefði verið lagður viðhlítandi grunnur að þeirri ákvörðun. Voru lögreglumannium því dæmdar bætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert