Tryggja verði börnum vernd

Salvör Nordal, umboðsmaður barna.
Salvör Nordal, umboðsmaður barna. mbl.is/Hari

Mál tveggja barna, sem glíma við alvarlegan fíknivanda og voru vistuð í fangaklefa lögreglunnar vegna skorts á viðeigandi úrræðum, eru litin afar alvarlegum augum af umboðsmanni barna og skorar embættið á stjórnvöld að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefjist. Vísað er til umfjöllunar fjölmiðla um málin.

Fyrra álit umboðsmanns barna er ítrekað þar sem kom fram að vistun barna í fangaklefum væri algerlega óásættanleg ráðstöfun og ekki í samræmi við meginreglur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. „Í fyrra skiptið var umboðsmanni barna tjáð að afar sérstakar aðstæður hefðu valdið því að gripið hafi verið til þessa ráðs en nú þegar gripið er aftur til þessa ráðs nokkrum mánuðum síðar er ljóst að stjórnvöld verða að bregðast strax við og tryggja með öllum ráðum að ekki komi til þeirra aftur.“

Umboðsmaður barna segir það langvarandi úrræðaleysi sem ríki í málefnum barna með alvarlegan fíknivanda eða barna með tví- eða fjölþættan vanda sem þurfa þjónustu frá barnaverndar og heilbrigðiskerfinu hér á landi sé óviðunandi með öllu. „Á meðan ekki hefur fundist varanlegt úrræði til að mæta vanda þessara barna er ljóst að grípa þarf til annarra úrræða til bráðabirgða sem koma í veg fyrir að slíkt neyðarástand skapist að barn sé sett í fangaklefa. Stjórnvöldum er skylt að setja hagsmuni barna í forgang, sbr. meðal annars 3. gr. Barnasáttmálans, og tryggja öllum börnum þá þjónustu sem þau eiga rétt á.“

mbl.is