Úlfar Eysteinsson látinn

Úlfar Eysteinsson matreiðslumeistari ásamt Stefáni syni hans.
Úlfar Eysteinsson matreiðslumeistari ásamt Stefáni syni hans. mbl.isÁrni Sæberg

Matreiðslumeistarinn Úlfar Eysteinsson lést í gær 71 árs að aldri. Frá andlátinu er greint á Facebook-síðu veitingastaðarins Þrír Frakkar við Baldursgötu í Reykjavík sem Úlfar opnaði árið 1989 og rak síðan ásamt fjölskyldu sinni.

Úlfar fæddist á loftinu yfir Prentsmiðju Hafnarfjarðar 23. ágúst 1947 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Eysteinn Óskar Einarsson (1923-2011), bókbindari í Hafnarfirði, og Þórunn Björnsdóttir (1924-1972).

Úlfar stundaði nám í Lækjarskóla og Flensborg. Úlfar hóf nám í matreiðslu í Leikhúskjallaranum og á Hótel Holti 1963 og útskrifaðist frá Hótel- og veitingaskólanum árið 1967. Hann starfaði síðan á Hótel Loftleiðum og í flugeldhúsi Flugleiða á Keflavíkurflugvelli til ársins 1978 og á veitingastaðnum Laugaási 1978-1981.

Úlfar stofnaði árið 1982, ásamt Sigurði Sumarliðasyni og Tómasi Tómassyni, veitingastaðinn Pottinn og pönnuna og ráku þeir hann til 1985. Síðar stofnaði Úlfar með Tómasi veitingastaðinn Sprengisand 1985 og Úlfar og ljón 1986 sem hann starfrækti til 1988. Hann stofnaði síðan veitingahúsið Þrjá Frakka sem hann opnaði 1. mars 1989.

Úlfar sat í stjórn Félags matreiðslumanna og var varaformaður þar, síðar formaður Lionsklúbbsins Njarðar 1995-96, gjaldkeri Sjóstangaveiðifélagsins og í stjórn og gjaldkeri EFSA. Úlfar var mikill áhugamaður um bridge. Hann keppti í akstursíþróttum í 25 ár, hér heima og erlendis, og stundaði sjóstangaveiði í jafnlangan tíma.

Eftirlifandi eiginkona Úlfars er Ingibjörg Ólöf Magnúsdóttir, fædd 1971, tækniteiknari hjá Naustmarin. Fyrri kona Úlfars var Sigríður Jónsdóttir (1947-1997). Þau skildu árið 1986. Börn Úlfars og Sigríðar eru Stefán og Guðný Hrönn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert