Alls ekkert „rip-off“

Þorgils Þorgilsson og Sindri Þór Stefánsson við þingfestingu í málinu.
Þorgils Þorgilsson og Sindri Þór Stefánsson við þingfestingu í málinu. mbl.is/Eggert

„Þetta er látið líta út eins og eitthvert „rip-off“ en það er alls ekki þannig,“ segir Þorgils Þorgilsson, lögmaður Sindra Þórs Stefánssonar. Sindri greiddi 2,5 milljónir króna í tryggingarfé til þessa að losa sig undan farbanni og er staddur á Spáni með fjölskyldu sinni.

Sindri er ákærður, ásamt sex öðrum, fyr­ir þjófnað á 600 tölv­um úr gagna­ver­um á Reykja­nesi í des­em­ber og janú­ar sl. og hafði hann verið úr­sk­urðaður í far­bann til 25. októ­ber næst­kom­andi vegna máls­ins.

Þorgils segir að það sé ekki svo að fólk geti bara borgað sig úr farbanni. Hann tekur dæmi úr kvikmyndaheiminum og segir að þetta sé eins og algengt er í glæpamyndum þegar fólk er „out on bail“ eða laust gegn tryggingu.

Þorgils segir að meðal þvingunarráðstafana sem lögregla getur krafist er gæsluvarðhald, farbann og svo að einstaklingur þurfi að reiða fram tryggingu til að tryggja viðveru hans. Í þessu tilviki krafðist ákæruvaldið  þess að Sindri sæti farbanni. Sú krafa var samþykkt en lögmaður Sindra krafðist þess að farbanni yrði aflétt. Til þess að tryggja, þrátt fyrir afléttingu á farbanni, að aðili mæti fyrir dómi eða þá að þola refsingu er sett kvöð um tryggingu.

Mæti aðilinn ekki, í þessu tilviki Sindri, yrði sú fjárhæð sem tryggingin er að andvirði í eigu ríkisinins. Ákvörðun um afléttingu á farbanni og þá í stað að aðili þurfi að reiða fram tryggingu verður að vera úrskurðað um af dómara, líkt og í þessu tilviki.

Ekki geti hver sem er reitt fram tryggingu þegar hann hafi verið úrskurðaður í farbann. Það er skilyrði fyrir tryggingu að farbanni sé aflétt og fjárhæð sem dómari kveður á um í úrskurði lögð fram til lögreglu.

„Þú tryggir komu þína og þeir fjármunir sem þú leggur fram eru fjármunir til að standa undir kostnaði við það ef það þarf að sækja þig,“ segir Þorgils og bætir við að með þessu sé tryggt að Sindri komi aftur og verði viðstaddur aðalmeðferð í málinu.

Sindri reiddi fram tryggingafé í stað þess að sitja í …
Sindri reiddi fram tryggingafé í stað þess að sitja í farbanni. mbl.is/Eggert

Spurður hvers vegna Sindri hafi ákveðið að fara þessa leið, tveimur vikum áður en farbannið hefði runnið út, segir Þorgils að skjólstæðingur hans hafi viljað aðeins víðara frelsi. Mögulega hefði Sindri verið úrskurðaður í lengra farbann 25. október, þótt ómögulegt sé að segja til um það.

Er að senda yfirlýsingu

„Hann er í raun og veru að senda yfirlýsingu um að hann komi aftur og að hann ætli að koma í dóminn og nýta rétt sinn til að fá málið útkljáð fyrir dómstólum.“

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagðist í gær ekki getað svarað því hvort hann teldi hættu á því að Sindri sneri ekki aftur til landsins. „ Við verðum að athuga að maðurinn neitar sök í málinu. Hann hefur rétt á því að málið verði útkljáð fyrir dómstólum. Hann neitar sök og hefur rétt á því að leggja þetta fyrir hlutlausan dómstól.“

Þorgils Þorgilsson, verjandi Sindra Þórs Stefánssonar.
Þorgils Þorgilsson, verjandi Sindra Þórs Stefánssonar.

Ekki algengt en hefur gerst áður

Þorgils segir að það sé ekki algengt hér á landi að fólk greiði tryggingafé til að losa sig undan farbanni en það hafi þó gerst áður. „Þetta er ekki þannig að hann geti labbað inn og sagt „hér er fullt af peningum, ég má væntanlega fara.“ Þetta virkar ekki þannig. Í raun og veru er hann að reiða fram tryggingu fyrir því að hann komi til baka. Í því felst yfirlýsing um að hann ætli ekki að flýja réttvísina.“

Hann segir að í hverju máli fyrir sig fari fram ákveðið hagsmunamat. Ekki geti allir lagt fram tryggingu fyrir farbanni. Í þessu tilviki sé hagsmunmatið það að Sindri muni ekki flýja réttvísina; það sé mat ákæruvalds og dómstóla. „Þess vegna fær hann að leggja fram þessa tryggingu til að tryggja að hann komi til baka, af því að ákæruvald og dómstólar telja ólíklegt að hann ætli að flýja réttvísina,“ segir Þorgils.

Hann gerir ráð fyrir því að aðalmeðferð í málinu hefjist í byrjun nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert