Auður sýknuð í Landsrétti

Auður Jónsdóttir.
Auður Jónsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Landsréttur hefur vísað frá kröfu Þórarins Jónassonar um að rithöfundurinn Auður Jónsdóttir verði dæmd fyrir meiðyrði vegna greinar sem hún skrifaði og var birt í Kjarnanum 13. júní 2016 undir fyrirsögninni „Forseti landsins“.

Dómur héraðsdóms, sem hafði áður sýknað Auði í málinu, var staðfestur. Þórarni var einnig gert að greiða henni eina milljón króna í málskostnað. Málinu var áfrýjað til Landsréttar 22. febrúar.

Þórarinn, sem er eig­andi Lax­ness hesta­leigu í Mos­fells­dal, krafðist þess að ummæli í greininni yrðu dæmd dauð og ómerk. Einnig krafðist hann þess að Auður yrði dæmd til refsingar vegna þeirra og henni gert að greiða honum eina milljóna króna miskabætur.

Í dómi sínum vísaði Landsréttur til þess að þar sem Þórarinn hefði ekki gætt að því að skjóta til Landsréttar ákvæði héraðsdóms um frávísun eftir reglum XXIV. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, kæmi ákvæðið ekki til skoðunar fyrir réttinum.

Hvað varðaði ummæli Auðar lagði Landsréttur til grundvallar að hún hefði aðeins verið að lýsa sinni persónulegu upplifun og þar með skoðun sem henni yrði ekki gert að færa sönnur á. Þá taldi Landsréttur nægilega í ljós leitt að hluti ummæla hennar hefði ekki verið tilefnislaus með öllu eða úr lausu lofti gripinn auk þess sem hluti þeirra var ekki talinn fela í sér meira en vangaveltur hennar.

Af þessum sökum voru ummælin ekki talin fela í sér ærumeiðandi aðdróttun í skilingi 235. gr. almennra hegningarlaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert