Fékk 2 ára dóm fyrir hlutdeild í nauðgun

Héraðsdómur hafnaði framburði konunnar fyrir dómi, sagði ósamræmis gæta í …
Héraðsdómur hafnaði framburði konunnar fyrir dómi, sagði ósamræmis gæta í honum og að hann væri lítt trúverðugur um þau atvik sem áttu sér stað. Ljósmynd/Bæjarins besta

Héraðsdómur Vestfjarða dæmdi á miðvikudag konu í tveggja ára fangelsi fyrir hlutdeild í nauðgun, sem átti sér stað 2. október árið 2016. Brotið var gegn þroskaheftri stúlku á barnsaldri. Karlmaðurinn sem ákærður var fyrir nauðgunina lést eftir að málið var þingfest, en hann var kærasti konunnar sem nú hefur hlotið dóm.

Konan var í ákæru sögð hafa veitt kærasta sínum liðsinni í verki með því að gefa fórnarlambinu óþekkta töflu og láta hana reykja kannabisefni, sem sljóvgaði hana. Svo hafi hún legið við hlið mannsins og fórnarlambsins og fróað sér á meðan nauðgunin átti sér stað.

Konan neitaði þessu fyrir dómi og sagði kynmök kærasta síns og stúlkunnar hafa verið með vilja beggja. Hún sagðist einnig ekki hafa gert sér grein fyrir ungum aldri brotaþola, né þeirri staðreynd að hún er þroskaheft.

Stúlkan bar vitni fyrir dómi og sagði konuna hafa gefið sér pillu sem á stóð „e“ skömmu eftir að hún kom á heimili hennar og kærasta hennar. Hún sagði að hún hefði reynt að hafna pillunni, en án árangurs. Í kjölfarið hafi henni „farið að svima og allt í einu hafi hún verið komin úr fötunum“, eins og það er orðað í dómi héraðsdóms.

Því næst hafi maðurinn haft við hana kynmök, á meðan konan notaði titrara á sjálfa sig. Aðspurð hvort hún hafi reynt að stöðva manninn í athöfnum hans, sagðist stúlkan hafa reynt það, en ekki þorað að segja neitt, verið kjaftstopp.

Móðir stúlkunnar frétti síðar af þessum atvikum frá þriðja aðila og það var ekki fyrr en þá sem stúlkan þorði að segja henni frá því hvað gerst hefði. Upplýsingarnar fékk móðirin frá konu, sem sú dæmda hafði sýnt myndir af því sem hún kallaði „threesome“ með stúlkunni.

Sálfræðingur sem kom fyrir dóminn lýsti því að vanlíðan og sálræn viðbrögð stúlkunnar sem varð fyrir brotinu samsvari líðan og viðbrögðum sem þekkt séu hjá fólki sem hafi orðið fyrir kynferðisbrotum. Sálfræðingurinn sagði jafnframt að stúlkunni hefði liðið ömurlega og verið uppfull af skömm yfir því að hafa lent í þessu. Meðal annars hafi hún orðið mjög vör um sig, farið að læsa að sér og átt erfitt með svefn.

Mat sálfræðingsins er að þroskaskerðing stúlkunnar ætti að vera fólki ljós og að það þyrfti ekki að tala við hana lengi til að átta sig á henni.

Héraðsdómur hafnaði því framburði konunnar fyrir dómi, sagði ósamræmis gæta í honum og að hann væri lítt trúverðugur um þau atvik sem áttu sér stað og væru tilefni málsins. Hún hefði bæði mátt átta sig á ungum aldri stúlkunnar og þroskaskerðingu hennar og að hún hefði bæði gerst sök um athöfn og athafnaleysi, með því að koma ekki í veg fyrir að haft væri samræði við stúlkuna.

Auk tveggja ára fangelsisdóms er konunni gert að greiða stúlkunni eina milljón króna í miskabætur og 3,6 milljónir króna í sakarkostnað.

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert