Framsýn styður Ragnar og Vilhjálm

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags.
Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Forysta stéttarfélagsins Framsýnar hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún lýsir yfir stuðningi við Ragnar Þór Ingólfsson formann VR í embætti fyrsta varaforseta ASÍ og Vilhjálm Birgisson, formann Verkalýðsfélags Akraness, sem annan forseta ASÍ. Í yfirlýsingunni er skorað á þá að gefa kost á sér en samkvæmt frétt Morgunblaðsins hafa þeir þegar gefið kost á sér í þessi embætti.

Frá Framsýn stéttarfélagi vegna 43. þings Alþýðusambands Íslands sem haldið verður í Reykjavík 24. – 26. október nk.

„Fyrir liggur að Drífa Snædal og Sverrir Mar Albertsson hafa gefið kost á sér til forsetakjörs í Alþýðusambandi Íslands á þingi sambandsins sem fram fer í lok október.

Framsýn stéttarfélag hefur lengi barist fyrir breytingum innan Alþýðusambands Íslands með það að markmiði að efla starfsemi sambandsins í anda skoðana og vilja verkafólks í landinu. Liður í því er að breyta um forystusveit í Alþýðusambandi Íslands.

Til að ná þessum markmiðum fram hefur stjórn og trúnaðarráð Framsýnar stéttarfélags samþykkt að skora á Ragnar Þór Ingólfsson formann VR að gefa kost á sér sem fyrsti varaforseti ASÍ og Vilhjálm Birgisson formann Verkalýðsfélags Akraness til að gefa kost á sér sem annar forseti ASÍ.

VR og Verkalýðsfélag Akraness hafa líkt og Framsýn stéttarfélag talað fyrir róttækum breytingum í verkalýðshreyfingunni. Til viðbótar má geta þess að með breytingum á forystusveit Eflingar stéttarfélags hafa komið fram nýir straumar í anda þeirra stéttarfélaga sem talað hafa fyrir breytingum og endurspeglast m.a. í kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands sem lögð var fram í vikunni. Metnaðarfull kröfugerð sem vakið hefur mikla athygli.

Framsýn stéttarfélag skorar á þingfulltrúa á 43. þingi Alþýðusambands Íslands að veita Ragnari Þór Ingólfssyni og Vilhjálmi Birgissyni gott brautargengi til starfa fyrir öflugustu verkalýðssamtök landsins, ASÍ.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert