Eftirlitsmyndavélar settar upp í Kópavogi

Eftirlitsmyndavél í Kópavogi. Kallað var eftir hugmyndum í verkefninu Okkar …
Eftirlitsmyndavél í Kópavogi. Kallað var eftir hugmyndum í verkefninu Okkar Kópavogur síðastliðið haust og kosið á milli þeirra í febrúar. Ljósmynd/Kópavogsbær

Þessa dagana er unnið að uppsetningu eftirlitsmyndavéla sem íbúar í Linda- og Salahverfi völdu í íbúakosningum í verkefninu Okkar Kópavogur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kópavogsbæ. 

Þar segir jafnframt, að þegar hafi verið settar upp og teknar í notkun vélar við Skógarlind og undir brúarstólpa Reykjanesbrautar. Auk þeirra myndavéla bætist svo við eftirlitsvélar við veitingastað KFC, við nýjan Arnarnesveg og á Vatnsendaveg við Ögurhvarf. Uppsetningu þeirra og tengingum vélanna við stjórnstöð lögreglu verði lokið á næstunni.

„Með þessum vélum eru allar þær bifreiðar sem koma inn og út úr austurhluta Kópavogs myndaðar sem gerir eftirlit lögreglu með hverfunum auðveldara,“ segir í tilkynningunni. 

Ennfremur segir, að Kópavogsbær sjái um uppsetningu vélanna sem séu annars vegar yfirlitsvélar og hins vegar vélar sem taki mynd af númerum bíla.

„Verkefnið er unnið í samvinnu Kópavogsbæjar, Neyðarlínunnar og Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en lögreglan hefur ein rétt til þess að skoða myndefni úr vélunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert