Segir rannsókn brunans ganga vel

Einstaklingarnir sem nú eru grunaðir um verknaðinn eru eldri en …
Einstaklingarnir sem nú eru grunaðir um verknaðinn eru eldri en 18 ára og því ekki þörf á að kalla til for­eldra og barna­vernd­ar­yf­ir­völd vegna máls­ins, líkt og áður var talið. mbl.is/Árni Sæberg

Lögregla er komin á góðan rekspöl með að upplýsa eldsvoðann sem varð í tengibyggingu Laugarlækjaskóla í síðustu viku. Þetta segir Jóhann Karl Þórisson, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá Lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu.

Fyrst höfðu vísbendingar um gerendur bentu til þess að þar hefðu einstaklingar undir lögaldri verið að verki. Svo reyndist hins vegar ekki vera og hófst leit að meintum sakborningum þá á ný.

„Við erum komin á góðan rekspöl  með málið, en erum ekki alveg búin að upplýsa það,“ segir Jóhann Karl. Þeir sem nú eru grunaðir eru hins vegar eldri en 18 ára að hans sögn, en á ör­ygg­is­mynda­vél­um sást til þriggja einstaklinga við skólann.

Eng­ir hafa enn verið yf­ir­heyrðir vegna máls­ins, en lög­reglu hafa þó borist ábend­ing­ar sem verið er að skoða og gerir Jóhann Karl ráð fyrir að málið skýrist frekar í næstu viku.

Allt til­tækt slökkvilið höfuðborg­ar­svæðis­ins var kallað að Lauga­lækja­skóla aðfaranótt síðasta þriðju­dags vegna elds­ins. Þrjár klukku­stund­ir tók að slökkva eld­inn, en hann komst und­ir klæðningu húss­ins og upp í þak, sem tor­veldaði slökkvistörf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert