„Við megum ekki gefast upp“

Margir eldri borgarar búa við óviðunandi lífskjör.
Margir eldri borgarar búa við óviðunandi lífskjör. Ljósmynd/Thinkstock

Um 8.000 manns hafa undirritað áskorun á netinu til stjórnvalda um að lífeyrir aldraðra verði það hár að þeir geti átt áhyggjulaust ævikvöld og hvorki aldraðir né öryrkjar þurfi að kvíða morgundeginum. Áskorunin verður afhent Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis í dag.

Frumkvæði að áskoruninni átti 82 ára gamall ellilífeyrisþegi, Erla Magna Alexandersdóttir. Fékk hún til liðs við sig Björgvin Guðmundsson, fyrrverandi skrifstofustjóra og borgarfulltrúa, sem þjóðkunnur er fyrir skrif um kjör aldraðra undanfarin ár.

„Ég er því miður ekkert of bjartsýn á að þessar undirskriftir verði til þess að ellilífeyririnn verði hækkaður,“ segir Erla í samtali í Morgunblaðinu í dag. „En við megum ekki gefast upp og við verðum að halda baráttunni áfram.“

Undirskriftasöfnun hófst 27. ágúst og lauk 8. október. Hún fór fram í gegnum vef þjóðskrár, island.is, og segir Erla að sér hafi verið sagt að þátttakan, 7.905 manns, hafi verið hin mesta á þeim vettvangi fram að þessu. Það hafi hins vegar verið ákveðið vandamál að fjöldi eldri borgara þekki ekki nægilega vel til þess hvernig bera eigi sig að á netinu og noti það lítið. Líklega hefðu undirskriftirnar ella orðið mun fleiri. Þá hafi söfnunin enga fréttaumfjöllun fengið í fjölmiðlum. Allt of lítill áhugi sé á málefnum eldri borgara í fjölmiðlum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert