Rússar fá að fylgjast með heræfingu NATO

Tacan Ildem er aðstoðarframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins á sviði opinberra samskipta.
Tacan Ildem er aðstoðarframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins á sviði opinberra samskipta. mbl.is/Eggert

Aðstoðarframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins á sviði opinberra samskipta, Tacan Ildem, segir ógnir tengdar netöryggi og rangri upplýsingagjöf fara vaxandi en að það sé fagnaðarefni að almenningur sem og stjórnvöld séu að verða upplýstari um hættuna sem fylgir. Hann var staddur hér á landi í vikunni, meðal annars til þess að ræða netöryggi og falsfréttir. Blaðakona mbl.is hitti Ildem í utanríkisráðuneytinu.

„Röng upplýsingagjöf og áróður eru meðal þess sem NATO er að auka varnir sínar gegn,“ segir Ildem, og að netárásir séu meðal aðferða sem notaðar séu í blönduðum árásum. „Netárásir, röng upplýsingagjöf, áróður og fjárhagslegur og pólitískur þrýstingur er á meðal þess sem notað er til þess að draga úr öryggi okkar sem samfélags.“

Mikilvægt að fjölmiðlar sýni seiglu

Ildem segir að hver og einn beri ábyrgð og hafi hlutverk þegar kemur að því að hindra að blandaðar árásir hafi tilætluð áhrif, og ekki síst fjölmiðlar sem þurfi að gæta þess að rekja þær upplýsingar sem þeir hafa undir höndum.

Ildem segir að netárásir, röng upplýsingagjöf og áróður sé á …
Ildem segir að netárásir, röng upplýsingagjöf og áróður sé á meðal þess sem notað er til þess að draga úr öryggi samfélaga. AFP

„Þegar NATO hóf viðveru í Litháen í febrúar árið 2017 kviknaði orðrómur í kring um ráðstefnu varnarmálaráðherranna í Brussel um að þýskur hermaður hefði nauðgað litháískri stúlku. Orðrómnum var komið á kreik með það að markmiði að koma höggi á ímynd bandalagsins. En þökk sé ábyrgum fréttaflutningi var hægt að rekja söguna og komast í samband við alla sem áttu hlut að máli, þar á meðal viðeigandi stjórnvöld, og afsanna orðróminn. Innan þriggja klukkustunda var orðrómurinn liðin tíð. Það er mjög mikilvægt að sýna seiglu í svona málum.“

Heræfing Atlantshafsbandalagsins, Trident Juncture 2018, fer fram í október og nóvember í Noregi og að hluta til á Íslandi og leiða má líkur að því að óvinveitt öfl reyni að varpa skugga á æfinguna með falsfréttum. Ildem segir að bandalagið sé á varðbergi gagnvart slíku, en að allra leiða sé leitað til þess að gera öllum ljóst að æfingin er ekki haldin til að ögra einum eða neinum.

Heræfing Atlantshafsbandalagsins, Trident Juncture 2018, fer fram í október og …
Heræfing Atlantshafsbandalagsins, Trident Juncture 2018, fer fram í október og nóvember í Noregi og að hluta til á Íslandi mbl.is/ÞÖK

„Tilgangur æfingarinnar er að gefa herafla okkar tækifæri til að æfa og samhæfa sig. Auðvitað er hún líka tækifæri til þess að sýna ákveðni og reiðubúning okkar til þess að verja yfirráðasvæði okkar, ef þörf krefur.“

„Við leggjum mikla áherslu á að æfingin sé ekki ætluð til þess að ógna. Þvert á móti þá fylgjum við ströngustu gagnsæisreglum. Löndin sem standa fyrir æfingunni, Noregur og Ísland, fylgja Vínarsamkomulagi ÖSE og öll aðildarríki stofnunarinnar, þar á meðal Rússland, hafa rétt til þess að fylgjast með framkvæmd æfingarinnar. Með þessu viljum við koma í veg fyrir misskilning og óþarfa stigmögnun á ríkjandi ástandi.“

Trident Juncture kjörin til að reyna á varnir bandalagsins

Ildem segir það ekki að ástæðulausu að NATO vinni nú að því að auka varnir sínar á öllum sviðum, og nefnir þar til að mynda innlimun Krímskaga og ofsafengnar aðgerðir Rússa í austurhluta Úkraínu.

Hann segir það fyrst og fremst á ábyrgð aðildarríkjanna að styrkja varnir sínar gegn netárásum og að það skipti sköpum til þess að gögnum NATO sé ekki stefnt í hættu. „Trident Juncture heræfingin verður kjörið tækifæri til þess að láta reyna á varnir bandalagsins í þessum efnum,“ segir Ildem.

Ildem segir það ekki að ástæðulausu að NATO vinni nú …
Ildem segir það ekki að ástæðulausu að NATO vinni nú að því að auka varnir sínar á öllum sviðum. mbl.is/Eggert

Aðspurður hvort Ísland sé í stakk búið til þess að bregðast við hvers konar netárásum segir Ildem að hann sé sannfærður um að Ísland, líkt og önnur aðildarríki Atlantshafsbandalagsins, sé að bregðast við kallinu um aukið netöryggi og að Ísland sé ekki síður mikilvægur hlekkur í því að verja bandalagið gegn árásunum. „Atlantshafsbandalagið sinnir einnig sínu hlutverki. Sérfræðingar okkar starfa allan sólarhringinn í höfuðstöðvunum við að verja netkerfin. Þá erum við einnig með með viðbragðslið sem geta gripið inn í og aðstoðað aðildarríkin, gerist þess þörf.“

Hvað falsfréttir varðar segir Ildem að ekkert ríki sé ónæmt, þrátt fyrir að falsfréttir séu ekki orðnar þrálátur vandi á Íslandi. Hann segir að öll ríki eigi að láta sig þessi mál varða vegna tengsla sín á milli. Því sé ekki hægt að segja að einhver ríki NATO séu undir áhrifum falsfrétta en önnur ekki, því þau tengist öll.

„Það er mér mikill heiður að fá að heimsækja Ísland, sem hefur verið aðildarríki NATO frá stofnun,“ segir Ildem, og að framlag Íslands til bandalagsins, sem og fleiri alþjóðlegra stofnana, sé verulegt og markvert. „Þið eruð leiðandi í málefnum kynjajafnréttis, friðar og öryggismála og framlag ykkar er mikils metið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert