Beit gest og dyravörð

mbl/Arnþór

Mikill erill hefur verið hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en hún hefur sinnt útköllum vegna heimilisofbeldis auk hávaðaútkalla. Fangageymslur lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu fullar að sögn lögreglu.

Lögreglan var m.a. kölluð út um miðnætti vegna manns sem var í annarlegu ástandi berjandi á útidyr fjölbýlishúss í miðborginni. Ljóst kom að þarna var um að ræða íbúa í húsinu en hann hafði læst sig úti og ekki náð sambandi við meðleigjanda sinn sem lá sofandi áfengissvefni inni í íbúðinni.

Á þriðja tímanum í nótt var karlmaður handtekinn vegna gruns um líkamsárás inni á bar í miðborginni. Þar hafði hann m.a. bitið gest á barnum og beit hann svo dyravörð eftir að dyravörðurinn reyndi að vísa manninum út. Karlmaðurinn var vistaður í fangaklefa enda var hann mjög ölvaður og illviðræðuhæfur.

Lögreglan handtók einnig nokkra ökumenn vegna gruns um ölvun við akstur. 

Kastaði glerflösku í lögreglubíl

Kl. 04:42 var karlmaður handtekinn eftir að hann hafði kastaði glerflösku í lögreglubifreið sem var staðsett í akstri í miðborginni. Varð karlmaðurinn mjög æstur þegar lögreglan hafði afskipti af honum og var hann færður á lögreglustöð.

Rúmlega fimm í morgun var karlmaður handtekinn í miðborginni eftir að hann hafði m.a. hrækt á lögreglumenn og haft í hótunum við þá. Lögreglumennirnir höfðu haft afskipti karlmanninum skömmu áður þar sem hann hafði haft í hótunum við annan karlmann sem átti leið hjá honum. Brást hann við á fyrrgreindan hátt og var hann vistaður í fangaklefa enda var hann í talsvert annarlegu ástandi sökum ölvunar.

Rúmlega tvö í nótt var karlmaður handtekinn á bar í Breiðholti fyrir að fara ekki að fyrirmælum lögreglu. Hafði honum verið gefin ítrekuð fyrirmæli að fara af vettvang eftir að hafa lent í stimpingum við dyraverði á barnum. Varð hann ekki við þessum fyrirmælum en hann var mjög æstur og ósamvinnuþýður. Var hann vistaður í fangaklefa þangað til hægt væri að ræða við hann.

Læsti sig inni í söluturni

Um klukkan fjögur í nótt var óskað eftir aðstoð lögreglunnar vegna karlmanns sem hafði læsts inni í söluturni í Breiðholti. Maðurinn hafði komið að söluturninum eftir lokun og tekið útidyrahurðina sem var kviklæst. Í framhaldinu fór hann inn í söluturninn og við það fór þjófanvarnarkerfi söluturnsins í gang og hurðin lokaðist á eftir honum. Var maðurinn þar inni þegar lögreglu bar að. Maðurinn fékk að fara frjáls ferða sinna enda voru ekki frekari kröfur á hendur honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert