„Þetta voru ein af stóru jólunum í mínu lífi“

Ellefu ár drengur sem varð fyrir skoti leyniskyttu Ísraelshers. Alþjóða …
Ellefu ár drengur sem varð fyrir skoti leyniskyttu Ísraelshers. Alþjóða Rauða krossinn (ICRC) rekur sérdeild fyrir særða innan Shifa, aðalsjúkrahússins í Gazaborg.

„Þetta er búið að ganga alveg ótrúlega vel. Ég hafði vorkennt sjálfum mér og gerði mikið mál úr því hvernig ég ætti að komast í gegnum Erez landamærastöðina. Ég hafði reyndar, í fyrsta skipti í mörg ár, fengið leyfi Ísraelshers til að fara inn á svæðið, en það fékk ég með hjálp bandarískra hjálparsamtaka,“ segir Sveinn Rúnar Hauksson læknir sem staddur er á Gaza, en þangað kom hann í lok síðustu viku með 50 sett af gervifótum í 10 töskum, sem hver um sig vó um 20 kíló.

Sveinn Rún­ar hef­ur haft um­sjón með verk­efn­inu Íslensk­ir gervi­fæt­ur til Gaza í sam­vinnu við gervilima­stöðina á Gaza, ALPC (Artificial legs and polio center), frá því að það hófst árið 2009. Verk­efnið er hug­ar­smíði Öss­ur­ar Krist­ins­son­ar og fram­kvæmt í sam­vinnu við Fé­lagið Ísland-Palestína og geng­ur út á að út­vega særðum borg­ur­um gervi­fæt­ur og aðra út­limi svo þeir geti lifað eðli­legu lífi.

Töskurnar tíu voru samtals um 200 kíló.
Töskurnar tíu voru samtals um 200 kíló.

Það voru bandarísku hjálparsamtökin, Palestínski barnahjálparsjóðurinn (PCRF), sem aðstoðu Svein Rúnar við að fá leyfi til að komast inn á svæðið, en slíkt leyfi hefur hann ekki fengið í fimm ár „Ég er þeim ótrúlega þakklátur fyrir hjálpina. Þeir settu mig á sína skrá og þegar það var komið þá gekk allt vel. Hernámsyfirvöld meina nánast öllum aðgangi að svæðinu,“ segir hann.

Óskar Þór Lárusson stoðtækjasmiður átti að vera með í för, en hann fékk ekki leyfi þrátt fyrir að hafa tvisvar áður farið með Sveini Rúnari í gegnum landamærastöðina. Hann þurfti því einn að bera ábyrgð farangrinum þetta skipti.

Eins og vagninn hefði verið skilinn eftir handa honum

Sveinn Rúnar segir töluvert ferðalag að komast í gegnum Erez þar sem fólki er gert að fara í gegnum þröng grindarhlið sem snúast. „Það er svo þröngt að þú getur ekki tekið töskuna þína með en það er í lagi að hafa töskuna í næsta bili og komast þannig í gegn. En það gekk ekki alveg fyrir mig.“

„Andinn er ekki bugaður hjá þessum ungu mönnum sem misst …
„Andinn er ekki bugaður hjá þessum ungu mönnum sem misst hafa ganglimi og leita til ALPC, Gervilimastöðvarinnar í Gazaborg. Það er eini valkosturinn á svæðinu,“ segir Sveinn Rúnar.

Hann spurðist fyrir um stærri vagna undir töskurnar en fékk þau svör að slíkt væri ekki í boði. Hann var hins vegar svo heppinn að þegar hann skrapp á klósettið þá beið hans þar stærðarinnar vagn sem hefði geta tekið miklu fleiri töskur en hann var með. „Það var eins og hann hefði verið skilinn þar eftir handa mér. Ég átti nú ekki von á því,“ segir Sveinn Rúnar sem fékk svo góða aðstoð við að koma töskunum í gegnum hliðin, en þar fyrir innan tók á móti honum starfsmaður bandarísku samtakanna sem fór með hann á gervilimastöðina. „Það er eini staðurinn á öllu Gaza-svæðinu sem framleiðir gervilimi. Bæði fætur og handleggi. Við erum búin að vera í samstarfi við þessa stöð síðan árið 2009.“

Össur gaf félaginu 100 sett af gervifótum og er Sveinn Rúnar að klára að koma þeim síðustu til skila. „Þetta eru 50 sett en beiðnirnar sem liggja fyrir eru nánast jafn margar, vegna mjög aukins fjölda aflmiðaðra í tengslum við þessi mótmæli sem kallast „Gangan mikla fyrir heimkomu“. Andsvar Ísraelshers hefur verið að setja hundruð leyniskytta á landamærin, með frjálst skotleyfi. Þær hafa verið að drepa fólk og særa,“ útskýrir hann.

Allt niður í 11 ára börn hafa misst fætur í árásunum

Sveinn Rúnar segir hátt í 200 manns hafa verið drepna af leyniskyttum og um 20 þúsund manns hafa særst. Áverkar vegna táragass falla einnig undir talninguna. „Þetta táragas er hreinlega svo eitrað að það drepur fólk ef það lendir í þeirri aðstöðu að það sé þrengt að því,“ bendir hann á.

„Ég hef heyrt töluna 8 þúsund skotsár. Ég hef verið að fara í heimahús þar sem verið er að skipta á sárum og þetta eru mjög óhugnaleg sár. Stundum opin beinbrot. Þessi skot eru mjög stór og svo eiga þeir við kúluna sjálfa þannig hún springur og opnast og rífur og tætir í kringum sig þegar hún snertir holdið.“ Hann hitti fyrir fórnarlömb á öllum aldri, allt niður í ellefu ára börn í þessum heimsóknum sínum.

Hosni Botch fyrstur til að fá íslenska gervifætur þegar verkefnið …
Hosni Botch fyrstur til að fá íslenska gervifætur þegar verkefnið hófst í maí 2009.

Þá hitti Sveinn Rúnar líka fyrir nokkra menn á gervilimastöðinni sem eru með vel gróin sár og eru tilbúnir að fá gervilimi. „Ég er því að koma alveg á réttum tíma með þessa sendingu. Svona stuðningur skiptir ekki bara máli að því leyti að við erum að gera eitthvað nauðsynlegt, heldur snýst þetta líka um siðferðislegan stuðning. Ég fæ að finna fyrir óskaplega miklu þakklæti hvar sem ég kem.“

Var farinn að ganga eftir tvo klukkutíma

Sveinn segir það skipta öllu máli fyrir einstaklinga sem misst hafa útlim að fá gervilim í staðinni. Það umturni lífsgæðunum til hins betra og geri fólki kleift að lifa tiltölulega eðlilegu lífi. Í ferð sinni núna hefur Sveinn Rúnar til að mynda hitt Hosni Botch, sem var fyrsti maðurinn til að fá íslenska gervifætur á Gaza árið 2009. Gervifæturnir gjörbreyttu lífi Hosni og hann gat aftur farið að sjá fyrir fjölskyldu sinni.

 „Þegar við Össur og liðið hans komum þarna fyrst í maí árið 2009, þá var ákafinn í Össuri svo mikill. Ég vildi fara upp á hótel og koma dótinu fyrir, en hann vildi fara beint á gervilimastöðina. Þar beið einn eftir okkur í hjólastól, hann hafði misst báða fætur og vantaði því tvo gervifætur. Það var Hosni.“

17 ára unglingur sem var skotinn af leyniskyttu, í mótmælum …
17 ára unglingur sem var skotinn af leyniskyttu, í mótmælum austan við borgina

Það var því ekki eftir neinu að bíða og stoðtækjasmiðirnir hófust handa við að smíða fætur. „Ég spurði Hosni hvort hann tryði því að hann yrði farinn að ganga aftur eftir tvo klukkutíma. Hann leit á mig og hristi höfuðið, en það er nákvæmlega það sem gerðist. Fyrir mig sjálfan var þetta stórkostleg upplifun. Að sjá fótalausan mann í hjólastól, heimilisföður þrítugan að aldri, ganga aftur. Það tók um klukkutíma að smíða hvorn fótinn og um leið og það var búið var hann farinn að reyna að ganga. Eftir klukkutíma í viðbót labbaði hann út úr byggingunni, að vísu með tvær hækjur til öryggis.“

Bróðir Hosni beið eftir honum og keyrði hann heim, en Sveinn og aðrir í fylgdarliðinu fóru með. „Þegar við komum í hverfið sem hann átti heima í þá safnaðist mikill fjöldi af fólki saman til að fagna þessum tíðindum. Það hafði spurst út að Hosni væri kominn með fætur og væri farinn að ganga. Þetta var ótrúleg upplifun. Heima hjá honum beið svo fjölskyldan; konan hans, börnin, systkini og foreldrar og það upphófst stórkostleg veisla. Þetta voru ein af stóru jólunum í mínu lífi.“

„Ég hitt hann síðast þegar ég var hérna og aftur núna, en hann var í afgreiðslunni í gervilimastöðinni að kaupa göngugrind handa pabba sínum. En Hosni gengur alveg sjálfur á sínum tveimur.“

17 ára gamall drengur sem varð fyrir skotárás hersins og …
17 ára gamall drengur sem varð fyrir skotárás hersins og er með vel gróinn stubb. Hann er enn með mikla verki og þarf að fara í enn eina skurðaðgerðina. Ætti þó að geta fengið íslenskan gervifót þangað til.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert