Furða sig á Náttúrufræðistofnun

Rjúpnaveiðimaður á ferð. SKOTVÍS segist furða sig á tillögum Náttúrufræðistofnunar …
Rjúpnaveiðimaður á ferð. SKOTVÍS segist furða sig á tillögum Náttúrufræðistofnunar um það hversu margar rjúpur megi veiða í vetur. mbl.is/Golli

Skotveiðifélag Íslands (SKOTVÍS) furðar sig á ákvörðunum Náttúrufræðistofnunar Íslands um það hversu margar rjúpur megi veiða á komandi vetri. Í tilkynningu frá SKOTVÍS kemur fram að veiðikvótinn hafi verið minnkaður um 33% á einum sólarhring, frá samráðsfundi um veiðarnar og þar til að tillögum Náttúrufræðistofnunar var skilað til umhverfis- og auðlindaráðherra.

„Hvað breytist á einum sólarhring? Hvaða nýju gögn komu fram sem ekki voru kynnt á fundinum?” segir í tilkynningu frá félaginu, sem segir Náttúrufræðistofnun hafa brugðist trausti skotveiðimanna með framkomu sinni og að erfitt verði að vinna það traust upp aftur.

Rétt er að taka fram að í fyrra var ráðlagður rjúpnaveiðikvóti 57.000 fuglar, en er í ár 67.000 fuglar, svo um er að ræða fjölgun um tíu þúsund fugla á milli ára.

Kynntu tillögur upp á 89.000 fugla kvóta

Samráðsfundur um rjúpnaveiðina fór fram 12. september síðastliðinn. Þar var farið yfir ástand rjúpnastofnsins og áhrif veiðistjórnunar metin. Í tilkynningu SKOTVÍS segir að þar hafi komið fram að veiðistofn rjúpunnar mældist um og yfir 900.000 fugla, sem sé með stærstu mælingum frá upphafi mælinga árið 1981. Á fundinum mun Náttúrufræðistofnun hafa kynnt að ráðleggingar stofnunarinnar til ráðherra yrðu að veiðikvótinn skyldi verða 89.000 fuglar.

„Í rökstuðningi NÍ kom fram að ljóst væri eftir að sölubann var sett á rjúpu, að fjöldi veiðidaga skipti ekki lengur máli. Sóknin væri sú sama. Veiðimenn sýndu ábyrgð og stunduðu hóflegar veiðar. Góður samhljómur var á fundinum og engin ágreiningur,“ segir í tilkynningu SKOTVÍS.

Mæltu með 67.000 fugla kvóta

Daginn eftir, 13. september, sendi Náttúrufræðistofnun svo tillögur sína til Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra. Þá var skoðun Náttúrufræðistofnunar orðin sú að beita ætti varúðarreglu og að veiðiþol stofnsins væri 67.000 fuglar.

„Dægursveifla ráðgjafar NÍ er því 22.000 fuglar eða um það bil 33%,“ segir í tilkynningu skotveiðimanna, sem gagnrýna einnig að þrátt fyrir að Náttúrufræðistofnun segi í greinargerð með ráðgjöf sinni að fjöldi veiðidaga hafi ekki áhrif á veiðar, sé ekki lögð til fjölgun veiðidaga.

Félagið telur talsvert rúm vera fyrir fjölgun veiðidaga, en að það sætti sig við fjölgun á 12 dögum í 18 á þessu hausti. Í tilkynningunni er bent á að veiðidagar á rjúpu voru 68 fyrir árið 2003.

Segja NÍ gengisfella varúðarregluna

SKOTVÍS segir það vekja athygli að Náttúrufræðistofnun noti ekki gögn um viðkomu rjúpnastofnsins á Norðausturlandi, eins og ætíð, heldur breyti til og noti gögn um viðkomu á Suðvesturlandi til þess að reikna út veiðiþolið. SKOTVÍS segir gagnasafnið á NA-landi bæði stærra og áreiðanlegra.

„Rökstuðningur NÍ er að sökum slæmrar tíðar á SV-landi í sumar sé rétt að beita varúðarreglu. Að mati SKOTVÍS er hér um hentistefnu en ekki vísindalega veiðistjórnun að ræða. Að beita varúðarreglu þegar ljóst er að veiðistofn rúpu hefur sjaldan verið stærri frá því að markvissar talningar hófust, getur ekki verið trúverðugt. Er réttlætanlegt að beita „varúðarreglu“ þegar stofninn er í hámarki og rjúpu fjölgar um allt land? Að mati SKOTVÍS þá er verið að gengisfella varúðaregluna með slíkri hentistefnu,“ segir í tilkynningunni.

Tillögur Náttúrufræðistofnunar um rjúpnaveiði 2018           

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert