„Lögfræðilegt stórslys“

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra eftir að hann kynnti frumvarpið fyrir …
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra eftir að hann kynnti frumvarpið fyrir ríkisstjórn á mánudag. Það var samþykkt án mótatkvæða þá um kvöldið. mbl.is/​Hari

Jón Þór Ólason, formaður Stangveiðifélags Reykjavíkur og lektor við lagadeild Háskóla Íslands, sagði atburði liðinnar viku lögfræðilega séð vera stórslys í viðtalsþættinum Þingvellir á K100 í morgun. Jón var gestur þáttarins ásamt Sif Konráðsdóttur, lögmanni og fyrrverandi aðstoðarmanni umhverfisráðherra, og þau ræddu um fiskeldismálin við Björt Ólafsdóttur, þáttastjórnanda og fyrrverandi umhverfisráðherra.

Farið var um víðan völl og voru umhverfisverndarsjónarmið Jóni Þór og Sif ofarlega í huga. Þá var þeim einnig tíðrætt um alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins og nefndu í því samhengi þriðju stoð Árósarsamningsins, sem á að tryggja almenningi aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, en eins og víða hefur komið fram var frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra um breytingu á lögum um fiskeldi afgreitt með sérstaklega hröðum hætti á tólfta tímanum á mánudagskvöld.

Gagnrýndu stjórnsýsluna

Jón Þór og Sif gagnrýndu bæði alla málsmeðferð og sagði Sif m.a.: „Það sem vekur ugg hjá mér er það að ekki bara þingmennirnir, ekki bara ráðherrarnir, heldur líka sérfræðingarnir og stofnanirnar, grafa undan [úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála]. Grafa undan hennar sjálfstæði, og því að hún sé óháður aðili. Ef þú myndir setja dómstól í stað nefndarinnar, sæir þú íslenskt samfélag tala svona um dóma héraðsdómstóla eða Landsréttar? Nei. Alvarlegast þykir mér að horfa á hvernig stjórnsýslustofnanirnar, skipulagsstofnun og umhverfisstofnun, grafa líka undan þessari nefnd [með því að segja] þú hefur ekki rétt fyrir þér.“

Jón Þór Ólason, formaður SVFR, var í viðtali á K100 …
Jón Þór Ólason, formaður SVFR, var í viðtali á K100 í morgun.

Jón Þór tók við boltanum af Sif og sagði: „Lögfræðilega séð þá er þetta stórslys.“ Hann sagðist einnig telja ástæðuna fyrir því að málið var afgreitt með svo ógnarhröðum hætti að ekki hefði verið unnt að réttlæta þessa lagabreytingu ef almenningur og umhverfisverndarsamtök hefðu haft tækifæri til að segja sitt um málið. 

Náttúran á ekki séns á Alþingi 

Sif Konráðsdóttir, gagnrýndi stjórnsýsluna, í Þingvöllum í morgun.
Sif Konráðsdóttir, gagnrýndi stjórnsýsluna, í Þingvöllum í morgun.

Sif gagnrýndi einnig Umhverfisstofnun harðlega og sagði á einum tímapunkti að Umhverfisstofnun yrði að skilja að henni bæri ekki skylda til að gefa út leyfi.

Þá ræddu Jón Þór og Sif einnig muninn á umhverfi fyrir laxeldisfyrirtæki hérlendis og í Noregi og bentu á að gjöld væru mun hærri í Noregi, og eftirlit miklum mun meira.  

Jón Þór gagnrýndi að síðustu Vinstri græna sérstaklega, sem hann sagði að hefðu barist fyrir því að Árósarsamningurinn yrði fullgiltur, og benti á að flokksmenn VG hefðu ekki reynt að minnsta kosti að tryggja fleiri daga við meðferð málsins. „Náttúran á ekki séns á Alþingi,“ sagði Jón Þór.

Björt bauð þingmönnum frá Vinstri grænum að koma í þáttinn en þeir komust ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert