VG vill styttri vinnuviku

„Lífsgæðaaukning í kjölfar styttingar vinnuviku gæti einnig leitt til þess …
„Lífsgæðaaukning í kjölfar styttingar vinnuviku gæti einnig leitt til þess að færri brenni út í starfi, verði óvinnufærir og þurfi á velferðarþjónustu að halda,“ segir í ályktuninni. mbl.is/Golli

Flokksráðsfundur VG hvetur til þess að vinnuvikan verði stytt niður í 30 tíma, auk þess sem verkalýðshreyfingin og þingmenn VG eru hvattir til þess að styðja allar aðgerðir sem stefna að því takmarki. Minnt er á lagafrumvarp sem nú liggi fyrir þinginu um 35 tíma vinnuviku.

Þetta er ein af ályktunum sem var samþykkt á flokksráðsfundi VG í gær. 

Þar segir enn fremur, að fundurinn fagni tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuviku.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á flokksráðsfundi VG í gær.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á flokksráðsfundi VG í gær. mbl.is/Árni Sæberg

„Sýnt hefur verið fram á að stytting vinnuvikunnar leiði til aukinna lífsgæða, betri framleiðni og færri veikindadaga. Styttri vinnuvika gagnast sérstaklega fjölskyldufólki með lágar tekjur, sem þyrfti þá að vinna minna til þess að ná endum saman.

Lífsgæðaaukning í kjölfar styttingar vinnuviku gæti einnig leitt til þess að færri brenni út í starfi, verði óvinnufærir og þurfi á velferðarþjónustu að halda,“ segir í ályktuninni.

Enn fremur segir, að stytting vinnuvikunnar geti einnig stutt við kynjajafnrétti hvað varðar vinnu innan sem utan heimilis, þar sem algengara sé að konur séu í hlutastarfi en karlar og sinni heimili meðfram vinnu.

„Það að stytta vinnuvikuna eykur líkur á að konur og karlar (pör)vinni jafnlanga vinnuviku og að heimilisstörf og umönnun barna verði þá með jafnara móti.

Styttri vinnuvika stuðlar að lífsgæðum, ánægju og eflingu fjölskyldutengsla fram yfir peninga og þann ímyndaða hag sem sumir atvinnurekendur telja sig hafa af því að halda vinnuviku sem lengstri.“

Ályktanir flokksráðsfundar Vinstri grænna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert