57 milljóna aukaframlag

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynnir um aukið fjármagn til að fjölga …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynnir um aukið fjármagn til að fjölga sérnámsstöðum lækna í heimilislækningum. mbl.is/Eggert

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu fær 57 milljóna aukaframlag til að fjölga sérnámsstöðum í heimilislækningum um fimm. Á fjárlögum þessa árs eru 300 milljónir króna ætlaðar til að efla þverfaglega þjónustu heilsugæslunnar. Þetta kynnti Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í dag.

Nú eru 46 læknar í sérnámi í heimilislækningum eftir umtalsverða fjölgun í sumar með þrettán nýjum námsstöðum. Af þeim eru 30 á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, 8 á Heilbrigðisstofnun Norðurlands, 6 á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og hinir tveir eru á heilbrigðisstofnununum á Austurlandi og Suðurnesjum.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að þörf fyrir sérnámsstöður sé tvíþætt. Annars vegar er fjölgun sérfræðinga í heimilislækningum mikilvæg til að fylgja eftir áherslum stjórnvalda um eflingu heilsugæslunnar og aukið hlutverk hennar innan heilbrigðiskerfisins. Hins vegar er meðalaldur starfandi sérfræðinga í heimilislækningum fremur hár og stór hópur þeirra mun fara á eftirlaun á næstu árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert