Farið verði ofan í alla ferla

Þórdís Lóa hrósar stjórn Félagsbústaða fyrir að fara af stað …
Þórdís Lóa hrósar stjórn Félagsbústaða fyrir að fara af stað með málið og ljúka því. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þarna eru vísbendingar um að ákveðnum verkferlum sé verulega ábótavant. Ég fagna því að þessari úttekt innri endurskoðunar sé lokið. Við tökum hana mjög alvarlega og ég vil hrósa stjórninni sérstaklega fyrir að fara með málið af stað fyrir tveimur árum síðan og leiða það til lykta,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar og formaður borgarráðs, um úttekt sem gerð var vegna umframkostnaðar við endurbætur á íbúðum Félagsbústaða við Írabakka í Reykjavík.

Stjórn Félagsbústaða samþykkti framkvæmdir fyrir 398 milljónir króna á árunum 2012 til 2016 en heildarkostnaðurinn reyndist að lokum 728 milljónir og nemur framúrkeyrslan því 83%. Framkvæmdastjóri Félagsbústaða, Auðun Freyr Ingvarsson, sagði af sér í kjölfar úttektarinnar.

Leggja fram tillögu í borgarstjórn vegna þjónustustefnu

Þórdís Lóa segir mikilvægt að tryggja að aðgerðaáætlun stjórnar Félagsbústaða, sem byggir á tillögum innri endurskoðunar borgarinnar, komist í framkvæmd sem fyrst undir nýrri stjórn, sem kjörin var fyrir nokkrum vikum, og nýjum framkvæmdastjóra, sem hún ber fullt traust til. „Það verði farið ofan í alla ferla sem snúa að innkaupum og viðhaldi, og ekki síður ýmislegt sem snýr að þjónustunni sjálfri,“ segir Þórdís Lóa og bætir því við að í þessari viku verði lögð fram tillaga í borgarstjórn um aukna áherslu á innleiðingu þjónustustefnu.

Aðspurð segist Þórdís Lóa virða þá ákvörðun framkvæmdastjóra að segja upp störfum. „Það er ein niðurstaða, það er algerlega verkefni stjórnar að meta það með framkvæmdastjóranum og þetta var þeirra niðurstaða. Ég virði það, Auðun hefur staðið sig afbragðsvel sem framkvæmdastjóri Félagsbústaða til margra ára.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert