Krefst lögbanns á Tekjur.is

Ingvar Smári Birgisson telur lög brotin með vinnslu upplýsinga á …
Ingvar Smári Birgisson telur lög brotin með vinnslu upplýsinga á Tekjur.is. Ljósmynd/Aðsend

„Það er mjög skýrt í mínum huga að hér er um brot að ræða, að það sé ómaklega vegið að friðhelgi einkalífs almennings, og að það sé rétt að fá lögbann á þessa vinnslu upplýsinga,“ segir Ingvar Smári Birgisson, lögfræðingur og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, sem hefur krafist lögbanns á vefinn Tekjur.is

Á vefnum er hægt er að fletta upp tekjum og skattaupplýsingum allra Íslendinga 18 ára og eldri, gegn greiðslu áskriftargjalds, en Viskubrunnur ehf. er rekstaraðili síðunnar. Persónuvernd hefur nú þegar borist níu erindi vegna Tekjur.is, þar af ein formleg kvörtun, og er málið til skoðunar.

„Ég tel að það hvernig vefsíðan Tekjur.is notar fjárhagsupplýsingar landsmanna, sem fengnar eru úr skattskrá ríkisskattstjóra, ekki standast lög. Í gegnum tíðina hefur umfjöllun um skatt- og launagreiðslur landsmanna verið byggð á ákvæði í tekjuskattslögum sem var sett fyrir tíma internetsins,“ segir Ingvar.

Í ákvæðinu segir að opinber birting á upplýsingum um álagða skatta sem koma fram í skattskrá, bæði í heild eða að hluta, sé heimil.

Ingvar segir þetta ákvæði vissulega fela í sér takmörkun á friðhelgi einkalífs og borgaralegum réttindum almennings og beri þess vegna að túlka þröngt. „Ég tel rétt að láta reyna á lögbann í ljósi þess að Persónuvernd hefur áður úrskurðað í sambærilegu máli er varðaði Creditinfo, þar sem þeir reyndu að miðla upplýsingum úr skattskrá ríkisskattstjóra til viðskiptavina sinna gegn greiðslu, líkt og Viskubrunnur gerir, og taldi það ólöglegt.“

Ingvar telur að vinnsla þeirra upplýsinga sem Viskubrunnur býður upp á gegn greiðslu, standist ekki lög um persónuvernd sem hafa styrkst mikið á þessu ári.

„Þetta eru upplýsingar sem standa nærri hjarta fólks“

Að hans mati væri það glapræði að að láta ekki reyna á lögbann, en um er að ræða tímabundna aðgerð til að aflétta ólögmætu ástandi.

„Mér finnst sjálfsagt, í ljósi þess að hér eru upplýsingar um alla skattgreiðendur 18 ára eldri, að láta reyna á það hvort hægt sé að fá lögbann á þessar upplýsingar. Í kjölfarið verður síðan skorið úr því fyrir dómstólum hvort lögmætt sé að vinna upplýsingar með þessum hætti.“

Ingvar bendir á að venjan sé sú að sýslumaður vinni með frekar skjótum hætti í lögbannsmálum og gerir ráð fyrir því að þannig verði því háttað í þessu máli. „Ég tel, í ljósi þeirra hagsmuna sem eru undir, að sýslumaður setji þetta í forgang.“

Hann hefur fengið mikil viðbrögð frá því það spurðist út að hann ætlaði að leggja fram kröfu um lögbann og segir hann símann varla hafa stoppað. „Það er ljóst að mjög stór hluti Íslendinga kann ekki við það að hægt sé að fletta upp upplýsingum um laun þeirra á internetinu. Þetta eru upplýsingar sem standa nærri hjarta fólks og það er eðlilegt að þær séu einkamál. Ef til vill er kominn tíminn á að það sé tekin pólitísk umræða á Íslandi um það hvernig við viljum haga þessum málum til framtíðar.“

Ingvar bendir á að Tekjur.is gangi miklu lengra en áður hefur verið gert, eins og til dæmis með upplýsingum um tekjur í Tekjublaði Frjálsrar verslunar og DV. Þar sé hægt að kaupa aðgang að gagnagrunni og fletta upp hverjum sem er, hvenær sem er.

Yfirlýsing sem Ingvar sendi frá sér vegna málsins: 

„Ég tel að birting fjárhagsupplýsinga allra skattgreiðenda á vefnum tekjur.is feli í sér ómaklega aðför að stjórnarskrárvörðum rétti almennings til friðhelgis einkalífs. Með starfrækslu vefsins er að mínu mati farið út fyrir heimildir þeirra ákvæða sem hafa legið að baki opinberri umfjöllun um laun og skattgreiðslur Íslendinga í gegnum árin. Í ljósi þess tel ég rétt að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu leggi lögbann við vinnslu Viskubrunns ehf. á fjárhagsupplýsingum Íslendinga og að félaginu verði gert að afmá upplýsingarnar af vefsíðu sinni, tekjur.is. Í kjölfarið sé svo hægt að takast á um lögmæti lögbannsins fyrir dómstólum.

 Sterk rök má færa fyrir því að sala á aðgangi að gagnagrunni sem inniheldur upplýsingar um skattgreiðslur allra landsmanna sé lögbrot. Persónuvernd hefur áður fallist á að birting upplýsinga úr skattskrá Ríkisskattstjóra, mjög svipuð þeirri sem á sér stað á tekjur.is, sé ólögmæt. Þá verður að hafa í huga að ákvæði það sem Viskubrunnur ehf. ber fyrir sig, 2. mgr. 98. gr. tekjuskattslaga, var lögfest fyrir tíma internetsins. Um er að ræða ákvæði sem felur í sér takmörkun á borgaralegum réttindum og því sé rétt að skýra það þröngt, þannig að gildissvið ákvæðisins sé takmarkað sem mest. Enn fremur hefur réttarvernd almennings gagnvart notkun á persónuupplýsingum þeirra verið styrkt til muna með tilkomu nýrra laga um Persónuvernd.

Verði ekki fallist á lögbann verður tekið til skoðunar að leita álits dómstóla á því hvort vegi hærra, réttur almennings til friðhelgis einkalífs eða réttur almennings til þess að starfrækja gagnagrunn á internetinu sem inniheldur upplýsingar um laun og skattgreiðslur skattgreiðenda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert