Kröfugerð VR samþykkt

VR gerir kröfu um að vinnuvika félagsmanna verði stytt í …
VR gerir kröfu um að vinnuvika félagsmanna verði stytt í 35 stundir á viku án launaskerðingar mbl.is/Jónas Erlendsson

Kröfugerð VR fyrir komandi kjaraviðræður var samþykkt á fundi trúnaðarráðs í kvöld. Í kröfugerðinni kemur fram að markmið kjarasamninga nú verði að rétta hlut þeirra lægst launuðu og auka ráðstöfunartekjur allra félagsmana. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

VR gerir kröfu um 41 til 42 þúsund króna hækkun á öll laun 1. janúar næstu þrjú ár og verða lágmarkslaun því 425 þúsund krónur í lok tímabilsins, eða 1. janúar 2021. Þá gerir VR kröfu um að vinnuvika félagsmanna verði stytt í 35 stundir á viku án launaskerðingar

Í tilkynningu segir að mikilvægt sé að bregðast við misræmi í launaþróun þeirra hæst launuðu í þjóðfélaginu, sem meðal annars megi rekja til ákvöðrunar kjararáðs árið 2016. „VR telur mikilvægt að taka sérstakt tillit til stöðu þeirra sem hafa lægstu launin og leggur því til að samið verði um krónutöluhækkun.“

Þá leggur VR til stórátak í húsnæðismálum, að stofnað verði óhagnaðardrifið húsnæðisfélag og að fjármögnun þess verði tryggð í kjarasamningi.

„VR gerir þá kröfu að stjórnvöld komi að gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, meðal annars með því að endurskoða persónuafslátt og tekjutengingar. Þá gera félagsmenn VR kröfu um skattleysi lægstu launa, lækkun vaxta og afnám verðtryggingar á neytendalán.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert