Kvartað yfir aðstæðum í skólamötuneyti

Áslandsskóli í Hafnarfirði.
Áslandsskóli í Hafnarfirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Umboðsmaður barna sendi síðasta vor bréf til Hafnarfjarðarbæjar eftir að embættinu hafði borist ábending vegna aðstæðna í skólamötuneyti í Áslandsskóla í Hafnarfirði.

Ábendingin var á þann veg að nemendur sem eru ekki í mataráskrift í skólanum fá ekki að sitja með félögum sínum í matsal skólans í matarhléum. Þess í stað eru þeir látnir borða nestið sitt á annarri hæð skólans.

Fram kemur á Facebook-síðu Umboðsmanns barna að embættinu hafi ekki enn borist viðbrögð vegna bréfsins, þar sem meðal annars er vitnað í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og grunnskólalög.

„Umboðsmaður barna hefur átt samskipti vegna málsins við skólastjóra Áslandsskóla, skólaskrifstofu Hafnarfjarðarbæjar og fráfarandi bæjarstjóra Hafnarfjarðar þar sem gerðar voru athugasemdir við framangreint fyrirkomulag,“ segir í bréfinu.

Skorað er á hlutaðeigendur að bæta úr stöðunni sem allra fyrst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert