„Hættum að plástra kerfið“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er þyngra en tárum tekur að fylgjast með manneskjum sem vilja fá hjálp og vilja hætta að neyta eiturlyfja en rekast á veggi í kerfinu aftur og aftur og aftur,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, á Alþingi í dag.

Hún kvaddi sér hljóðs í umræðum um störf þingsins og gerði þar heimildamyndina Lof mér að lifa að umtalsefni sínu. Myndin var sýnd á RÚV síðustu tvö kvöld þar sem fjallað er um raunveruleikann sem liggur að baki kvikmyndinni Lof mér að falla. Tveimur fíklum er fylgt eftir í myndinni, sem er gerð af Jóhannesi Kr. Kristjánssyni.

Þorgerður sagði að það hafi verið sláandi að fylgjast með sögum kvennanna tveggja í heimildamyndinni og ekki síst þeim veggjum sem þær lentu á í kerfinu þegar þær voru tilbúnar til að leita sér hjálpar.

„Við erum hér svo sem með ágætt kerfi sem hefur byggst á því að við höfum treyst stofnunum á borð við Vog fyrir að sinna þeim sem þurfa að komast í meðferð við fíknivanda. Gott og vel. En það er ekki nóg. Af hverju er ekki verið að gera betur og ráðast á þessa biðlista sem beinlínis blöstu við okkur í beinni útsendingu?“ spurði Þorgerður.

Þörf á allri eftirfylgni

Að hennar mati vantar alla eftirfylgni. „Afvötnun er eitt skref, það að lifa lífinu eftir afvötnunina er allt annað. Það vantar mikið upp á stoðir sem taka við þessum einstaklingum sem eru brotnir og þurfa aðstoð við að lifa lífinu eftir þessa rússíbanareið sem fíknin getur verið.“

Þorgerður sagði að kerfið þurfi að viðurkenna fíkn sem skelfilegan og grafalvarlegan sjúkdóm og koma fram við hann sem slíkan. „Við verðum að gera betur, þetta er ekki stjórnar- eða stjórnarandstöðumál, þetta er samfélagsmál, við eigum að styðja við stjórnvöld hverju sinni til að gera betur því við þurfum að taka utan um vandann, ráðast að rótum hans. Hættum að plástra kerfið sem augljóslega er ekki að valda verkefninu,“ sagði Þorgerður.

Sérstök umræða um forvarnir fór fram að loknum umræðum um störf þingsins. Málshefjandi var Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, og tók Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra þátt í umræðunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert