Hjúkrunarfræðingar ávísi getnaðarvörnum

Með breytingunum vill ráðherra bæta aðgengi kvenna, einkum ungra kvenna, …
Með breytingunum vill ráðherra bæta aðgengi kvenna, einkum ungra kvenna, að kynheilbrigðisþjónustu og nýta betur fagþekkingu hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum verður heimilað að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum, verði frumvarp til breytinga á lyfjalögum og lögum um landlækni og lýðheilsu að lögum. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að leggja frumvarpið fram á Alþingi og kynnti hún efni þess á ríkisstjórnarfundi á dag.

Með breytingunum vill ráðherra bæta aðgengi kvenna, einkum ungra kvenna, að kynheilbrigðisþjónustu og nýta betur fagþekkingu hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra. „Fyrst og fremst snýst þetta um greiðara aðgengi kvenna að ráðgjöf og leiðbeiningum samhliða ávísun þessara getnaðarvarna eftir því sem það á við,“ er haft eftir Svandísi í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu

Heimildin verður skilyrt

Miðað er við að heimild hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra til að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum verði háð þeim takmörkunum að viðkomandi starfi á heilbrigðisstofnun þar sem heilsugæslu-,  kvenlækninga- eða fæðingarþjónusta er veitt. „Jafnframt er gert ráð fyrir að heimildin sé bundin við leyfi sem landlæknir veitir að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum sem sett verða í reglugerð. Meðal þeirra skilyrða er að viðkomandi hafi sótt og staðist fræðilegt og klínískt námskeið um lyfjaávísanir,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Svandís segir að með frumvarpinu sé einnig verið að nýta betur menntun og sérþekkingu mikilvægra heilbrigðisstétta. „Allt bendir til þess að með því megi efla mikilvæga þjónustu og stuðla að greiðara aðgengi að henni,“ er haft eftir ráðherra í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert