Meirihlutinn til útlanda í sumarfríinu

Tæplega 62% landsmanna ferðuðust til útlanda í sumarfríinu í ár.
Tæplega 62% landsmanna ferðuðust til útlanda í sumarfríinu í ár. mbl.is/Sigurgeir

Tæplega 62% landsmanna ferðuðust til útlanda í sumarfríinu í ár, samkvæmt nýrri könnun Gallup. Er spurningin var fyrst lögð fram fyrir átta árum hafði aðeins þriðjungur Íslendinga ferðast til útlanda það sumar, en fjöldin þeirra sem leita út fyrir landsteinana hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins ferðuðust þá frekar til útlanda í sumar en íbúar landsbyggðarinnar. Þeir sem lokið hafa framhaldsskólamenntun eða háskólaprófi eru þá líka líklegri til að ferðast til útlanda en fólk sem hefur ekki framhaldsmenntun að baki.

Fjölskyldutekjurnar hafa einnig áhrif, en þeir sem hafa hærri fjölskyldutekjur eru líklegri til að hafa ferðast til útlanda. Hópurinn með lægstu fjölskyldutekjurnar reyndist þó einnig nokkuð líklegur til að hafa farið til útlanda, en sú hefur ekki verið raunin í fyrri mælingum.

Kort/Gallup

Þeir sem ferðuðust til útlanda í sumar gistu að meðaltali 14 nætur hver á ferðalögum sínum og er það aðeins meira en í fyrra þegar meðaltalið var tæplega 13 nætur.

Rúmlega 69% Íslendinga ferðuðust þá innanlands í sumar, en færri landsmenn ferðuðust innanlands síðustu fjögur sumur en gerðu það sumrin 2010 – 2012.

Samkvæmt könnun Gallup er fólk með háskólapróf líklegra til að hafa ferðast innanlands í sumar en þeir sem hafa ekki lokið háskólaprófi. Þá gistu þeir landsmenn sem ferðuðust innanlands að meðaltali 8 nætur hver á ferð sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert