Vill að fatlaðir megi aka á göngugötum

Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi leggur til að fötluðum verði heimilt að …
Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi leggur til að fötluðum verði heimilt að aka um göngugötur í miðborginni. mbl.is/Eggert

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, leggur til á fundi borgarstjórnar á eftir að handhöfum stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða verði heimilt að aka um göngugötur í miðborg Reykjavíkur og að leggja bílum sínum í bílastæði á göngugötum.

Einnig leggur Kolbrún til að hámarkshraði ökutækja á göngugötum verði 10 km/klst og að það muni eiga bæði við um bifreiðar fatlaðra og þá sem keyra um göngugötur með aðföng.

Borgarstjórn hefur samþykkt að Laugavegurinn eigi að verða göngugata allt árið og að unnið verði að því að fjölga göngugötum í miðborginni.

„Eins skemmtilegar og göngugötur eru þá eiga margir sem eru hreyfihamlaðir ekki auðvelt aðgengi að þeim. Það er ekki nema lítill hluti hreyfihamlaðs fólks sem notast við hjólastól eða göngugrind og getur því nýtt sér göngugötur,“ segir Kolbrún í greinargerð sinni og er tillaga hennar því ætluð til að koma til móts við þá hreyfihömluðu einstaklinga sem hvorki nota hjólastóla né göngugrindur.

Kolbrún segir að þrengt hafi verið að „ferðafrelsi“ hreyfihamlaðra í miðbænum síðustu ár með sumarlokun gatna og vegna framkvæmda.

„Þó hugmyndin þurfi ekki að vera slæm sem slík, eru svona algjörar lokanir að brjóta á réttindum fatlaðra,“ skrifar Kolbrún í greinargerð sinni og bæti við að á vefsíðu Reykjavíkurborgar standi meðal annars að óheimilt sé að mismuna fólki vegna fötlunar, að allir eigi rétt á virkri þátttöku í borgarsamfélaginu og að fatlaðir eigi jafnan aðgang að þjónustu og ófatlaðir.

„Fyrir marga hreyfihamlaða er einfaldlega verið að loka borginni fyrir þeim. Í þessu sem öðru þarf að vera eitthvað eðlilegt jafnvægi. Huga þarf að margbreytileikanum og mannréttindum í þessum sem öðru,“ skrifar Kolbrún, sem telur það að meina hreyfihömluðu fólki að aka um miðborgina sé mannréttindabrot.

Fundur borgarstjórnar Reykjavíkur hefst kl. 14 í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert