Dæmdur fyrir hatursorðræðu

„Ég vona að þetta verði til þess að fólk hugsi …
„Ég vona að þetta verði til þess að fólk hugsi sinn gang og láti ekki svona frá sér.“ EPA

„Það er mjög stórt skref í baráttunni gegn hatursorðræðu að fá þennan dóm því hann staðfestir að orðum fylgir ábyrgð,“ segir Sema Erla Serdar sem fagnar því að Héraðsdómur Suðurlands hafi dæmt mann sekan um hatursorðræðu vegna ummæla sem hann lét falla í athugasemdakerfi DV í júlí 2016.

Ummæli mannsins voru svohljóðandi, en þau skrifaði hann á Facebook-síðu eiginkonu sinnar: „Vona að Sema Erla Serðir farist í næstu hryðjuverkaárás skítmenna af hennar tagi (múslimaskítmenna)“.

Sema Erla Serdar.
Sema Erla Serdar. Ljósmynd/Aðsend

Maðurinn var ákærður fyrir hatursorðræðu gegn múslimum en dómurinn gekk lengra og dæmdi manninn einnig sekan um hatursorðræðu gegn Semu Erlu, þrátt fyrir að hún sé ekki múslimi.

Sema Erla fjallar ítarlega um dóminn í færslu á Facebook-síðu sinni, sem lesa má í heild sinni neðst í fréttinni, en í samtali við mbl.is segir hún að hingað til hafi vantað upp á að þolendur hatursorðræðu fái vernd. „Nú er internetið orðið vinsælasti vettvangurinn fyrir hatursorðræðu sem fer vaxandi hér eins og annars staðar. Það er mjög mikilvægt að fá þessa staðfestingu. Hatursorðræða er andlegt ofbeldi og hefur ekkert með tjáningarfrelsi að gera. Hún er stórhættuleg.“

Nefnd um umbætur á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis skilaði nýlega fimm frumvörpum, sem snúa að rýmkun tjáningarfrelsis, til ráðherra. Eitt þeirra leggur til þrengingu á refsingu við hatursorðræðu og segist Sema Erla hugsi yfir þeim áætlunum.

„Ég hefði farið allt aðra leið, þá leið sem löndin í kringum okkur eru að fara, og það er að skilgreina nákvæmlega hvað hatursorðræða er,“ segir Sema Erla og bendir á að Ísland sé töluvert langt á eftir nágrannalöndum sínum í þessum málum.“

Aðspurð segist hún hafa hugsað sér að senda inn umsögn um frumvörpin, enda hafi hún eytt mörgum árum í að skoða allt sem viðkemur hatursorðræðu.

Sema Erla lítur ekki á dóminn sem sinn persónulega sigur, heldur sigur fyrir alla þá sem berjast gegn hatursorðræðu. „Ég vona að þetta verði til þess að fólk hugsi sinn gang og láti ekki svona frá sér.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert