Jólageitin mætt undir ströngu eftirliti

Jólageitin var sett upp fyrir utan IKEA í dag.
Jólageitin var sett upp fyrir utan IKEA í dag. mbl.is/Eggert

Sænska jólageitin er mætt fyrir utan verslunina IKEA stærri og dýrari en nokkru sinni fyrr. Geitin, sem vegur um sjö til átta tonn, var hífð upp með krana í dag.

Að sögn Þórarins Ævarssonar, framkvæmdastjóra IKEA á Íslandi, fer geitin venjulega upp um svipað leyti og jólin fara af stað í versluninni. Ákveðið var að sæta lagi í dag vegna þess að vindurinn var ekki of mikill.

Aðspurður segir Þórarinn að líkt og í fyrra verði geitin undir ströngu eftirliti svo að brennuvargar geri sér ekki að leik að kveikja í henni eins og gerst hefur. „Við erum með sólarhringsgæslu. Það eru bókstaflega menn í bíl við geitina og þannig verður það allar nætur fram að jólum,“ segir hann og bætir við að í fyrra hafi þeir sem ætluðu að kveikja í henni snúið við á punktinum er þeir sáu öryggisvörðinn á staðnum.

„Okkur er fyllsta alvara. Það eru mikil verðmæti í geitinni og við höfum engan áhuga á að hún sé brennd, þó að menn haldi öðru fram. Við ætlum að reyna að gera okkar til að tryggja að hún fái að lifa.“

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi.
Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi. mbl.is/Ófeigur

Lætur ekki berja sig niður af brennuvörgum

Hann segir að geitin hafi kostað hátt í fimm milljónir í ár, enda er hún alltaf að stækka sem þýðir einnig að fleiri jólaseríur þarf á hana. „Ég tók þá ákvörðun þegar þetta byrjaði að ég myndi stækka hana um einn og hálfan metra í hvert skipti sem hún yrði brennd. Ég ætla ekki að láta berja mig niður af þessum brennuvörgum. Svo hefur hún verið brennd svo oft að hún er alltaf að verða stærri og stærri, en þetta er orðið ágætt núna,“ segir Þórarinn, sem minnir að geitin sé 6 til 7 metra há.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert