Köttur heimsfrægur starfsmaður

Dániel og kærastan, Zsuzsi, með Pál Dánielsdóttur í lopapeysunni góðu.
Dániel og kærastan, Zsuzsi, með Pál Dánielsdóttur í lopapeysunni góðu.

„Fólk er þegar farið að senda okkur skilaboð þar sem það vill bóka gistingu hér einvörðungu vegna kattarins, það vill koma sérstaklega til að heilsa upp á hann og spyr hvaða tími sé bestur, svo það hitti köttinn örugglega. Fyrsta spurning margra gesta okkar við innritun á hótelið er: „Hvar er kötturinn?“ Enda hefur hann náð ótrúlegri frægð, greinar hafa verið skrifaðar um köttinn í fjölmiðlum í Rússlandi, Taívan, Singapúr, Bangladesh, Tyrklandi og í fréttum í heimalandi okkar Ungverjalandi. Í morgun vorum við í viðtali á einni af stærstu útvarpsstöðvunum í Ungverjalandi og við erum að fara í skype-viðtal á eftir hjá ungverskri sjónvarpsstöð og annað sjónvarpsviðtal á morgun.“

„Auk þess hefur kisa sinn eigin Instagram-reikning undir nafninu pal.the.mousekeeper, og fylgjendum þar hefur fjölgar mjög hratt, núna eru þeir tæplega sex þúsund. Mynd sem við deildum af kettinum á facebooksíðunni Spottaði kött, fór um víða veröld og hefur fengið mörg þúsund læk,“ segir Dániel Puskás en hann og kærasta hans, Zsuzsi Szabó, eru eigendur þessa víðfræga hótelkattar á Hellnum á Snæfellsnesi, þar sem þau eru öll starfsmenn.

Sótti kettlinginn í rigningu

Kötturinn er bröndótt læða sem ber nafnið Pál Dáníelsdóttir.

„Pál starfar hér sem músavörður (mousekeeper) og hefur fengið formlegt starfsmannakort eins og aðrir starfsmenn hótelsins,“ segir Dániel en hann fluttist til Íslands árið 2016.

„Þegar kærastan mín flutti til mín skömmu síðar þá saknaði hún mikið kisu sinnar sem hún átti heima í Ungverjalandi, svo ég ákvað að gefa henni nýjan kött. Ég vildi koma henni á óvart svo þetta var allt mjög leynilegt, en stelpa sem vann með mér á hótelinu á Núpum vissi um kettlinga á bæ sem heitir Tún og er rétt utan við Selfoss. Þangað fór ég á miklum rigningardegi og sótti kettling, litla læðu og færði kærustunni. Hún varð mjög hissa og glöð og við gáfum kisu litlu nafnið Pál. Nafnið kemur frá Ungverjalandi og er karlkyns, rétt eins og Páll á íslensku, en það er ekki óalgengt í okkar heimalandi að gefa læðum karlkyns nöfn, til gamans. Auk þess er persóna í þáttunum Family Guy sem heitir Pál.“

Alin upp af tvö hundruð manns

Þegar Dániel er spurður að því hverskonar persónuleiki Pál sé, hvort kötturinn sé kannski óargadýr, grimmur músamorðingi, segir hann að læðan sú sé ljúf sem lamb og einstaklega mikið fyrir fólk.

„Sem kemur sér vel hér á hótelinu þar sem kemur fjöldi gesta víða að úr heiminum. Og fyrir vikið er læðan okkar alin upp af um tvö hundruð manns, hinu ólíkasta fólki sem hefur gefið sig að henni frá því hún kom til okkar. Kötturinn er því orðinn sleipur í mörgum tungumálum og hefur glatt marga á sinni stuttu ævi. Þetta er mjög elskaður köttur, það er ekki hægt að segja annað.“

Dániel segir að hann og kærastan hans, Zsuzsi, fari stundum út í göngutúra og þá trítli kötturinn gjarnan með, enda njóti hann þess að uppgötva ný svæði.

„Þá verður ýmislegt kvikt á vegi okkar, til dæmis hefur hún rekist á seli í flæðarmálinu, en hún var ekki mjög hrifin af þeim, hún virtist eiga erfitt með að gera upp við sig hverskonar skepnur þetta væru, stórir kettir eða eitthvað annað,“ segir Dániel og hlær.

Með tvær mýs í kjaftinum

Dániel segir Pál vera frjálsa allra sinna ferða, inni og úti og að hún sinni starfi sínu sem músavörður af mikilli natni. „Þegar við fluttum hingað að Hellnum í janúar var eitthvað af músum, en Pál hefur séð um að fækka þeim og nú er lítið um mýs hér. En þegar við unnum á Núpum var mikið að gera hjá Pál, stundum kom hún með tvær mýs í einu í kjaftinum, hún var mjög afkastamikill veiðiköttur. En nú lætur hún duga að veiða fugla, vissulega fer hún þar út fyrir starfssvið sitt, en þetta er hennar eðli.“

Kötturinn Pál er ofdekruð skepna og auðvitað gat slíkur starfsmaður á plani ekki verið án þess að eiga góða peysu.

„Móðir kærustu minnar prjónaði á kisuna lopapeysu, um leið og hún prjónaði peysur á okkur tvö. Það var ekki hægt að skilja hana útundan. En hún er ekkert sérstaklega hrifin af því að klæðast þessari peysu, ég held henni sé allt of heitt í henni, enda hefur hún sinn feld til að veita sér skjól.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert