Oddný hætt í Þingvallanefnd

Oddný var ein þriggja nefndarmanna sem studdu ráðningu Ólínu Kjerúlf …
Oddný var ein þriggja nefndarmanna sem studdu ráðningu Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur í starf þjóðgarðsvarðar Þingvalla. mbl.is/Árni Sæberg

Oddný G. Harðardóttir situr ekki lengur í Þingvallanefnd og hefur varamaður hennar, Guðmundur Andri Thorsson, tekið sæti Samfylkingarinnar í nefndinni. Þetta staðfestir Oddný í samtali við mbl.is en vill ekki tjá sig nánar um málið.

Oddný var ein þriggja nefndarmanna sem studdu ráðningu Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur í starf þjóðgarðsvarðar Þingvalla, en ákveðið var að ráða Einar Á. E. Sæmundsson á fundi Þingvallanefnar 5. október.

Oddný G. Harðardóttir.
Oddný G. Harðardóttir. Ljósmynd/Bragi Þór Jósefsson

Ólína hefur gagnrýnt ráðninguna opinberlega og segir að fram hjá sér hafi verið gengið vegna aldurs og kyns þrátt fyrir að hún hefði meiri menntun og meiri og víðtækari stjórnunarreynslu en sá sem ráðinn var. Þá vakti hún athygli á því að einn nefndarmanna, Páll Magnússon, hefði aldrei hlýtt á framsögur umsækjenda heldur mætt að þeim loknum og verið búinn að gera upp hug sinn.

Oddný gagnrýndi Pál fyrir að sýna umsækjendum óvirðingu í færslu á Facebook í kjölfar ráðningarinnar og gaf lítið fyrir svörin sem hann gaf Vísi vegna málsins. Oddný sagði fásinnu að Páll hafi getað kynnt sér verkefni beggja áður en hann tók ákvörðun. „Ósannar eftiráskýringar sýnast mér þetta vera hjá þingmanninum,“ skrifaði Oddný.

Fær rökstuðning innan nokkurra daga 

Ari Trausti Guðmundsson, formaður Þingvallanefndar, staðfestir í samtali við mbl.is að Ólína hafi óskað formlega eftir rökstuðningi nefndarinnar fyrir ráðningu Einars. Hún muni fá rökstuðning í hendurnar innan nokkurra daga. Aðspurður hvort rökstuðningurinn verði birtur opinberlega segir Ari Trausti að það verði skoðað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert