57 stöðvaðir með fölsk skilríki

57 manns voru stöðvaðir í Leifsstöð fyrstu níu mánuði þessa …
57 manns voru stöðvaðir í Leifsstöð fyrstu níu mánuði þessa árs fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum. mbl.is/Ómar Óskarsson

57 manns voru stöðvaðir í Leifsstöð fyrstu níu mánuði þessa árs fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum. Á sama tímabili í fyrra hafði 61 verið stöðvaður með fölsuð skilríki, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Í flestum tilfellum, eða 29, var um svonefnd grunnfölsuð skjöl að ræða, í 13 tilfellum var reynt að nýta skilríki einhvers annars, í 12 tilvikum hafði skilríkum verið breytt og í þrjú skipti var um ólöglega útgáfu að ræða.

Af þeim sem 57 sem reyndu að ferðast með ólögmætum hætti frá Íslandi ætluðu flestir að fara til Kanada, eða 18. 15 voru á leið til Írlands, 14 til Bretlands og 1 til Bandaríkjanna, en níu höfðu Ísland sem ákvörðunarstað.

Langflest þessara mála komu upp vegna ferðalaga innan Schengen-svæðisins og reyndist einungis í einu tilviki um að ræða einstakling sem kom frá ríki utan Schengen og var sá að koma frá Írlandi.

Flest fölsuðu skilríkjanna voru ítölsk eða grísk, eða í 21 tilviki af 57 og komu albanskir ríkisborgarar oftast við sögu eða í 16 tilvikum af 57.

Afskiptum lögreglu í flugstöðinni af einstaklingum án skilríkja fer fjölgandi. Eru þeir orðnir 70 á tímabilinu 1. janúar til loka september 2018, en voru allt árið í fyrra samtals 91, 72 árið 2016, 21 árið 2015 og 14 árið 2014.

Þeim einstaklingum sem ekki er hleypt inn í landið hefur einnig fjölgað verulega. Frá 1. janúar til loka september 2018 hefur 103 einstaklingum sem komu um Leifsstöð verið vísað frá á ytri landamærum Íslands. Heildarfjöldi árið 2017 var 54, 26 árið 2016, 21 árið 2015 og 18 árið 2014.

Slík frávísun er framkvæmd þegar einstaklingur uppfyllir ekki skilyrði til farar yfir landamærin, t.a.m. ef hann er áritunarskyldur og ekki með gilda áritun, hefur ekki gild ferðaskilríki, hefur þegar dvalið 90 daga eða lengur á síðustu sex mánuðum eða er í endurkomubanni inn á Schengen svæðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert