5 mánuðir fyrir árás á fyrrverandi

Maðurinn mun hafa reiðst þegar konan bað hann að passa …
Maðurinn mun hafa reiðst þegar konan bað hann að passa fyrir sig. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás gagnvart fyrrverandi sambýliskonu sinni með því að hafa kýlt hana í andlitið með þeim afleiðingum að hljóðhimnan rofnaði og vinstri vígtönn losnaði frá tannholdinu. Maðurinn var einnig dæmdur fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot. Var honum einnig gert að greiða konunni tæpar 400 þúsund krónur í miskabætur.

Konan lagði fram kæru á hendur manninum í febrúar 2016, vegna líkamsárásar og heimilisofbeldis sem hún sagðist hafa orðið fyrir af hans hálfu fyrr sama daga. Sagði hún að maðurinn væri nýkominn til landsins eftir að hafa verið í meðferð í Svíþjóð. Hann vantaði samastað og hún leyfði honum að hafa heimili hjá sér.

Konan sagði aðdraganda árásarinnar hafa verið með þeim hætti að hún bað manninn um að passa fyrir sig á meðan hún færi í afmæli. Við það hafi hann reiðst og og slegið hana utan undir. Í framhaldi hafi hann farið niðrandi orðum um hana við dóttur hennar. Þá hafi hún ýtt við honum en hann hafi í kjölfarið lamið hana í andlitið með krepptum hnefa.

Hún leitaði til læknis eftir atvikið og fékk vottorð vegna áverkanna og þóttu þeir samrýmast fullkomlega lýsingum hennar á árásinni.

Sagði tennur konunnar slæmar og farnar að molna

Fyrir dómi viðurkenndi maðurinn að hafa slegið konuna með flötum lófa en vildi ekki meina að hann hefði kýlt hana með krepptum hnefa. Þau hafi verið að rífast því hún hafi verið á leiðinni á djammið og hún hafi ýtt við honum. Í kjölfarið hafi hann slegið hana. Hann sagði höggið ekki hafa verið fast og að hann hafi einungis verið að verja sig.

Um skýringar á ákverkunum sagði maðurinn að tennur konunnar hafi verið slæmar og farnar að molna. Hún hafi því getað misst tönn við minnsta högg. Hann gat hins vegar ekki gefið skýringar á sprunginni hljóðhimnu.

Ákæra í málinu var ekki gefin út fyrr en í mars á þessu ári, tveimur árum eftir atvikið, og var tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar. En engar skýringar voru gefnar á töf málsins. Þá játaði maðurinn skýlaust þau umferðar- og fíkniefnalagabrot sem honum voru gefin að sök.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert