Ábyrgðin felld niður því greiðslumat skorti

Hæstiréttur taldi LÍN ekki hafa látið framkvæma fullnægjandi greiðslumat.
Hæstiréttur taldi LÍN ekki hafa látið framkvæma fullnægjandi greiðslumat. mbl.is/Ófeigur

Hæstiréttur Íslands felldi í dag úr gildi sjálfskuldarábyrgð móður vegna námslána sem dóttir hennar tók hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) árið 2010. 

Það var niðurstaða Hæstaréttar að ógilda ætti sjálfskuldarábyrgðina á grundvelli ógildingarreglu samningalaga, þar sem LÍN hafi ekki látið framkvæma fullnægjandi greiðslumat áður en dótturinni, sem var á vanskilaskrá, var veitt lánið. 

Í málflutningi fyrir Hæstarétti kom fram að skuldin hafi nú verið í vanskilum frá hausti 2017 og var hún gjaldfelld af þeim sökum. 

Um er að ræða prófmál en fimm dómarar dæmdu í málinu og skilaði einn þeirra sératkvæði og taldi að vísa ætti málinu aftur til héraðsdóms.

Í dóminum kemur fram að í mars 2010 hafi dóttirin sótt um lán hjá LÍN vegna fyrirhugaðs meistaranáms í viðskiptafræði. Ekki fylgdu miklar upplýsingar um fjárhag hennar og aðstæður, en þó kom fram að móðir hennar yrði umboðsmaður hennar gagnvart LÍN. Tveimur mánuðum síðar sendi LÍN móðurinni bréf þar sem fram kom að þar sem nafn dótturinnar væri á vanskilaskrá væri ekki unnt að veita henni námslán að svo stöddu. 

Dóttirin gæti hins vegar sótt um undanþágu frá úthlutunarreglum með því að leggja fram ábyrgð.

Í framhaldi sendi dóttirin LÍN bréf þar sem fram kom að hún væri að vinna að því að klára að greiða reikninginn. Hún óskaði þá eftir að fá að vita hvort hún gæti fengið námslán þrátt fyrir að vera á vanskilaskrá ef hún fengi ábyrgðarmann. Þeirri fyrirspurn svaraði LÍN að henni myndi standa til boða lán ef hún væri komin af vanskilaskrá eða skráður hafi verið ábyrgðarmaður fyrir hana. Dóttirin tilkynnti í framhaldinu að móðir hennar yrði ábyrgðarmaður fyrir láninu.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar að LÍN hafi ekki réttilega uppfyllt þá skyldu sína að leggja mat á greiðslugetu dótturinnar. Ekkert liggi fyrir í málinu um fjárhag dótturinnar, efnahag hennar eða tekjur, hvorki nú né þegar móðir hennar gerðist ábyrgðarmaður hennar. Það verði því ekki ráðið um það hvað réttilega gert greiðslumat kynni að hafa leitt í ljós.

Þótt ætla megi að vegna fjölskyldutengsla hafi móðirin búið yfir nokkurri vitneskju um aðstæður og fjárhag dóttur sinnar, sé ófært að byggja á því að greiðslumat hefði ekki í þessu tilviki getað leitt í ljós atriði, sem gætu haft áhrif á töku ákvörðunar um hvort stofna ætti til ábyrgðarskuldbindingar. Var það því mat dómsins að sjálfsábyrgðin yrði gerð ógild.

Í frétt á vef Vísis um málið segir að niðurstaða meirihluta Hæstaréttar sé fordæmi í málum annarra lántaka hjá LÍN þar sem reyni á sjálfskuldarábyrgð við greiðslufall. Hefur Vísir eftir Hrafnhildi Ástu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra LÍN, að fjárhagsleg áhrif dómsins séu lítil sem engin. Þó að Hæstiréttur hafi fellt sjálfskuldaábyrgðina úr gildi eigi LÍN enn sína kröfu á námsmanninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert